• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Mar

Fjármálastofnanir hafa leyst til sín fjórar íbúðir hvern virkan dag frá 1. janúar 2009

Íslenskum heimilum að blæða út og ekkert gertÞað er óhætt að segja að það ríki algjört neyðarástand hjá íslenskum heimilum um þessar mundir. Nú liggja fyrir nýjar tölur um að fjármálastofnanir þessa lands hafi leyst til sín 4.290 íbúðir frá 1. janúar 2009 sem gerir 86 íbúðir á mánuði eða sem nemur rétt tæpum fjórum íbúðum hvern virkan dag á þessu tímabili. Já takið eftir, tæpar 4 íbúðir leysa fjármálastofnanir hér á landi til sín hvern einasta virka vinnudag ársins. Ugglaust fá fjölskyldur í einhverjum tilfellum að vera áfram í íbúðunum sem leigjendur til að þær lendi ekki beint á götunni en þetta eru skelfilegar tölur og sýnir í hvers lags gríðarlegri neyð íslensk heimili eru um þessar mundir vegna hrunsins.

Skiptingin á milli þeirra fjármálastofnana sem um ræðir og hafa leyst til sín skuldsett húsnæði landsmanna er eftirfarandi:

 

Íbúðalánasjóður

2.563

Íslandsbanki

   630

Landsbankinn

   605

Arion banki

   492

Samtals eru þetta eins og áður sagði 4.290 íbúðir sem fjármálastofnanir þessa lands hafa leyst til sín frá 1. janúar 2009. Á þessum tölum sést það skelfingarástand sem hér ríkir hjá íslenskum heimilum. Ég spyr mig hvað það kosti fjármálakerfið að leysa þessar íbúðir til sín og hvað það muni kosta að halda áfram að gera ekki neitt fyrir íslensk heimili. Þetta sýnir líka svo ekki verður um villst að allt tal um að gera ekki neitt fyrir skuldsett heimili er algjörlega ábyrgðarlaust enda ljóst að kostnaðurinn við að gera ekki neitt getur orðið mun meiri heldur en að grípa til róttækra aðgerða til bjargar íslenskum heimilum.

Formaður spyr sig hvernig geta stjórnmálamenn leyft sér að eyða tíma sínum í umræður á Alþingi um mál sem eru ekki nærri því eins mikilvæg og sú blákalda staðreynd að íslenskum heimilum er að blæða út eins og þessar tölur sýna svo ekki verður um villst.

Rétt er að geta þess að íslensk heimili bera ekki nokkra ábyrgð á þessu hruni og því er það þyngra en tárum taki að horfa upp á þær afleiðingar sem heimilin þurfa að sitja uppi með vegna afleiðinga hrunsins sem stjórnmálamenn og fjárglæframenn bera fyrst og fremst ábyrgð á.

Formaður vill segja við stjórnmálamenn: Vaknið! Þið getið ekki látið það átölulaust að verið sé að bera fjórar fjölskyldur út á hverjum einasta virka degi án þess að lyfta svo mikið sem litla fingri þessu fólki til bjargar. Þetta er brýnasta hagsmunamál íslensks samfélags í dag og það á að setja öll önnur mál á ís á meðan leyst er úr þessum vanda.

Það er nefnilega hægt að rifja það upp fyrir stjórnmálamenn sem koma nú og segja að það sé lýðskrum að ætla að koma íslenskum heimilum til hjálpar að það er búið að leggja á herðar íslenskra skattgreiðenda 427 milljarða til bjargar fjármálakerfinu vegna hrunsins. Sem dæmi þurftu íslenskir skattgreiðendur að greiða 16 milljarða bara í vaxtagjöld vegna endurreisnar fjármálakerfisins á síðasta ári. Og ugglaust er sú tala enn hærri á þessu ári. Því er það nöturlegt og dapurlegt að vita til þess að stjórnmálamenn skuli tala um lýðskrum þegar talað er um að koma íslenskum heimilum til hjálpar í ljósi áðurnefndra staðreynda.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image