• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Mar

Ef stóriðjunnar nyti ekki við væri hægt að slökkva ljósin

Það er svosem ekki orðin nein nýlunda að umræðan um stóriðjurnar hér á landi eigi undir högg að sækja hvað almenningsálitið varðar. Það skal algjörlega viðurkennast að formanni VLFA finnst þessi umræða oft á tíðum vera afar óvægin gagnvart þessum mikilvægu störfum sem unnin eru í stóriðjunni. En nú er Norðurál á Grundartanga sakað um það að reyna að koma sér hjá því að greiða skatta hér á landi með einhverjum bellibrögðum eins og fram kom í Kastljósi í gær.

Það er best að byrja á því að rifja upp starfsemi Norðuráls hér á landi. Norðurál hóf starfsemi hér árið 1998 og var framleiðslugeta fyrirtækisins 60 þúsund tonn og um 160 manns störfuðu hjá fyrirtækinu á upphafsárinu. Frá þeim tíma hefur verið botnlaus uppbygging hjá fyrirtækinu sem hefur gert það að verkum að fyrirtækið framleiðir nú um 290 þúsund tonn af áli og hjá fyrirtækinu starfa um 600 manns auk 1000 afleiddra starfa.

Rétt er að geta þess að þessa dagana eru gríðarlegar framkvæmdir hjá Norðuráli á Grundartanga sem munu standa í ein þrjú ár og eru þessar framkvæmdir einar af fáum á landinu sem nú eru í gangi. En þessar fjárfestingarframkvæmdir hjá Norðuráli á Grundartanga nema um 4 milljörðum króna bara á þessu ári en áætlað er að heildarkostnaðurinn við þær næstu 3 árin verði um 11 milljarðar króna. Á þessu sést hversu gríðarlega atvinnuskapandi þetta fyrirtæki er fyrir okkur Akurnesinga og þjóðarbúið í heild sinni nýtur góðs af.

Það er ýjað að því að Norðurál sé ekki að greiða neinn tekjuskatt hér á landi en það liggur fyrir að frá árinu 2009 hefur Norðurál greitt 3,4 milljarða í tekjuskatt og bara á síðasta ári greiddi fyrirtækið 1,6 milljarð í tekjuskatt. Auk þess hefur fyrirtækið greitt 1,2 milljarð í fyrirframgreiddan tekjuskatt en það var gert samkomulag við stjórnvöld um þennan fyrirframgreidda skatt vegna bágrar stöðu þjóðarbúsins. Þessu til viðbótar er fyrirtækið að greiða 300 milljónir í fasteigna- og hafnargjöld á hverju einasta ári svo ekki sé talað um skatttekjur sem ríki og sveitarfélög fá vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá fyrirtækinu en sá skattur er um 1 milljarður króna á ári.

Það er þyngra en tárum taki að lesa ummæli eftir Björn Val Gíslason, formann fjárlaganefndar, þar sem hann segir að það sé ekki rétt að Norðurál meðal annars hafi greitt tekjuskatt hér á landi. Eins og áður sagði þá greiddi Norðurál bara á síðasta ári 1,6 milljarð auk 400 milljóna í fyrirframgreiddan skatt og því er það með ólíkindum að heyra formann fjárlaganefndar saka Norðurál um að greiða ekki tekjuskatt hér á landi. Fáfræði formanns fjárlaganefndar ríður ekki við einteyming.

Það er óhætt að segja að Verkalýðsfélag Akraness hafi tekið margar syrpurnar við forsvarsmenn Norðuráls þegar kemur að því að semja um kaup og kjör. Það þekkja þeir sem hafa tekið þátt í þeim kjarasamningsviðræðum með formanni félagsins enda hefur mikið gengið á við kjarasamningsgerðina, jafnvel hurðum skellt og hart tekist á. En alltaf hefur verið komist að niðurstöðu þar sem undirritaðir hafa verið kjarasamningar. Í því samhengi er rétt að geta þess að laun og önnur kjaraatriði  í stóriðjunum eru umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Ástæðan fyrir því er sú að afkoma þessara fyrirtækja hefur verið mjög góð og þetta eru krefjandi störf sem unnin eru í stóriðjunum. Verkafólk sem hefur starfað hjá Norðuráli í 3 ár er með í heildarlaun með öllu í vaktavinnu fyrir 184 klukkustundir 505 þúsund krónur. Iðnaðarmenn á vöktum eru með 650 þúsund krónur í laun. Formaður félagsins fullyrðir að þeirri baráttu við að bæta kjör þessa fólks enn frekar sé hvergi nærri hætt því alltaf má gera betur. En formaður fullyrðir að þessi starfskjör bjóðast ekki á hinum almenna vinnumarkaði. Einnig er rétt að geta þess að í síðustu samningum var samið um svokallaðan stóriðjuskóla sem mun geta gefið starfsmönnum að loknu námi allt að 9% viðbótar launahækkun.

Það er orðið dapurlegt fyrir starfsmenn sem vinna í þessum stóriðjum að þurfa að lesa og hlusta stanslaust á neikvæða umræðu í garð þessara fyrirtækja. Á þeirri forsendu sá formaður sig knúinn til að skrifa þennan pistil, starfsmönnunum til varnar. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á því að við byggjum okkar velferðarsamfélag upp á því að skapa hér gjaldeyristekjur. Það eru þrjár atvinnugreinar sem skapa um 90% þessara gjaldeyristekna, það er að segja sjávarútvegur, ferðaþjónusta og síðast en ekki síst stóriðjufyrirtækin. Þessum fyrirtækjum þarf að skapa þannig rekstrarskilyrði að þau geti vaxið og dafnað sem leiðir svo af sér hærri laun þeirra starfsmanna sem starfa hjá þeim og fjölgun starfa en ekki fækkun.

Við Akurnesingar gerum okkur algjörlega grein fyrir mikilvægi stóriðjunnar hér á Akranesi enda er nánast morgunljóst að ef að stóriðjunnar nyti ekki við þá væri hægt að slökkva ljósin hér á Akranesi og pakka saman. Svo mikilvæg er þessi starfsemi fyrir samfélagið á Akranesi og það þekkja allir þeir sem búa þar og í nærsveitum. Því biður formaður þá aðila sem tala niður þessa starfsemi að tala af ögn meiri virðingu fyrir þeim störfum sem þetta ágæta fólk sinnir dags daglega til að skapa hér gjaldeyristekjur fyrir íslenskt samfélag.  Gjaldeyristekjur sem hjálpa til við að halda úti löggæslu, mennta- og heilbrigðiskerfi hér á landi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image