• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Mar

Fjölmennur fundur í Reykjanesbæ

Formanni VLFA var boðið að flytja erindi á opnum fundi í Reykjanesbæ sem Hagsmunasamtök heimilanna héldu í gær. Á þessum fundi voru auk formanns frambjóðendur allra flokka ásamt bæjarstjóra Reykjanesbæjar og sýslumannsins þar. Umræðuefnið á fundinum var verðtryggingin, skuldavandi heimilanna og síðast en ekki síst það skelfingarástand sem ríkir í atvinnumálum á Reykjanesi.

Það var afar athyglisvert að hlusta á ræðu bæjarstjórans þar sem fram kom í máli hans að í raun og veru væri atvinnuleysi á Suðurnesjum allt að 20% þó skráð atvinnuleysi væri 9,5% því gríðarlegur fjöldi hefur lokið bótarétti sínum og flutt úr landi. Það kom fram í máli hans að félagsaðstoð á vegum bæjarins hafi aukist gríðarlega.

Formaður sagði í erindi sínu að Suðurnesjamenn ættu samúð hans alla yfir því skelfingarástandi sem ríkti á þessu svæði. Tók hann sem dæmi að skráð atvinnuleysi á Suðurnesjum væri 9,5% en á Vesturlandi væri það 3,3% og það þætti mönnum samt sem áður of hátt. Hvergi annarsstaðar er meira atvinnuleysi eða fleiri nauðungarsölur á fasteignum en á Suðurnesjum. Formaður talaði hátt og skýrt um mikilvægi þess að afnema verðtryggingarvítisvélina sem er að ganga frá íslenskum heimilum dauðum enda væri verðtryggingin búin að fara eins og skýstrókur um íslensk heimili og soga allan eignarhluta frá heimilunum og færa hann yfir til fjármálafyrirtækja og erlendra vogunarsjóða. Formaður sagði að leiðrétting á skuldavanda heimilanna, afnám verðtryggingar og það að koma tannhjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik væru brýnustu hagsmunamál íslenskrar alþýðu og um þessi mál yrði svo sannarlega kosið í komandi kosningum.

Formaður var ekki að skafa af því þegar kom að því að ræða það skefjalausa dekur sem hefur viðgengist gagnvart fjármálakerfinu og nefndi sem dæmi að búið væri að setja fram 427 milljarða til bjargar fjármálakerfinu og því væri dapurlegt að heyra stjórnmálamenn og sérhagsmunagæslumenn öskra lýðskrum og spyrja hver eigi að borga þegar talað væri um að leiðrétta forsendubrest íslenskra heimila. Formaður sagði að ekki hafi heyrst hósti eða stuna frá þessum aðilum þegar 427 milljarðar voru lagðir á herðar alþýðunnar og einnig nefndi formaðurinn að þessir sömu aðilar víluðu það ekki fyrir sér að tala um að leggja jafnvel hundruði milljarða á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave samninganna á sínum tíma.

Formaður kom einnig inn á hversu gríðarlega mikilvægt það væri fyrir Suðurnesjamenn að koma starfseminni í Helguvík á fulla ferð. Formaður fór yfir þau launakjör sem eru við lýði í stóriðjum hér á landi og tók skýrt fram að þau launakjör væru umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Hann sagði einnig að það væri óskiljanlegt að menn væru ekki búnir að leggja allan sinn kraft og þunga í að koma þessari framkvæmd á laggirnar enda er Helguvík líflína Suðurnesjamanna. Nefndi hann sem dæmi að ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við þá væri hann sannfærður um að það væri nánast hægt að slökkva ljósin á Akranesi, pakka saman og flytja eitthvert annað. Svo mikið vægi hefur stóriðjan á Grundartanga fyrir lífsafkomu Akurnesinga og þeirra sem búa í nærsveitum þar.

Þetta var hörkugóður fundur, mörg góð erindi, flottar spurningar og í mörgum tilfellum flottir frambjóðendur. En það sem vakti mesta athygli hjá formanni félagsins var af hverju honum var boðið að sitja þennan fund og flytja erindi í ljósi þess að þetta er ekki félagssvæði formanns VLFA og rétt er að geta þess að hart var lagt að honum að mæta á þennan fund. Það vakti líka athygli hans að hann sá ekki formenn annarra stéttarfélaga á þessum fundi þó svo að fjölmargir Suðurnesjamenn væru á fundinum og umræðuefnið væri afar brýnt fyrir hagsmuni launafólks og skuldsettra heimila.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image