• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Nov

Formaður fundar með þingmönnum Norðvestur kjördæmis

Formaður félagsins ásamt bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar Akraness áttu fund með þingmönnum Norðvestur kjördæmis í gær. Tilefni fundarins var úthlutun á byggðarkvóta en á Vesturlandi komu rúm 800 tonn til úthlutunar en ekkert einasta kílógramm kom hins vegar til Akraneskaupstaðar.

Það eru fá ef nokkur sveitarfélög hér á landi sem geta fært jafn góð og gild rök fyrir því að þau eigi rétt á byggðakvóta eins og Akraneskaupstaður. Ástæðan er einföld, samdráttur í vinnslu og veiðum hér á Akranesi er hvergi eins mikill á landinu öllu. Ástæðan er sú að eftir sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda árið 2004 hefur dregið stórkostlega úr allri starfsemi fyrirtækisins hér á Akranesi. Þessum rökum komu áðurnefndir fulltrúar á framfæri við þingmenn Norðvestur kjördæmis því það hafa tapast hundruð starfa í fiskvinnslu og afleiddum störfum vegna þess að HB Grandi hefur flutt töluverðan hluta af sinni starfsemi til annarra starfsstöðva fyrirtækisins, eins og til dæmis til Vopnafjarðar. En HB Grandi hefur ráðist í uppundir 4 milljarða króna framkvæmdir á Vopnafirði er tengjast uppsjávardeildinni og hefur vinna á Vopnafirði verið gríðarleg sökum þessarar uppbyggingar fyrirtækisins en samt sem áður fékk Vopnafjörður 300 tonnum úthlutað í byggðarkvóta en eins og áður kom fram fékk Akranes ekkert.

Einnig bar lífeyrissjóðsmál á góma við þingmenn og fór formaður yfir stöðu lífeyrissjóðsmála en hann telur stöðu lífeyriskerfisins verulega slæma og benti sérstaklega á að búið er að skerða lífeyrisréttindi hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni sem er 14 milljörðum meira heldur en heildar niðurskurður íslenska ríkisins á sama tímabili. Hann upplýsti þingmennina einnig um að lífeyrissjóðir innan ASÍ væru þrátt fyrir þessar miklu skerðingar á lífeyrisréttindum með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 100 milljarða króna. En lífeyrissjóðskerfið í heild sinni vantar um 700 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar sem er grafalvarlegt mál og með ólíkindum að heyra forsvarsmenn lífeyrissjóðskerfisins tala um að þetta sé besta lífeyrissjóðskerfi í heimi í ljósi þessara staðreynda. Formaður bað þingmenn um að skoða þessi mál vel og rækilega því þetta sé tifandi tímasprengja sem muni springa framan í skattgreiðendur á næstu árum og áratugum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image