• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Þing ASÍ var tekið í gíslingu að mati miðstjórnar Formaður VLFA í ræðustól á ársþingi ASÍ árið 2009
08
Nov

Þing ASÍ var tekið í gíslingu að mati miðstjórnar

Eins og fjallað hefur verið um hér á heimasíðu félagsins þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram þrjár tillögur á þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var 19. til 21. október síðastliðinn. Auk þessara tillaga fór formaður yfir samræmdu launastefnuna sem gerð var í síðustu kjarasamningum og gagnrýndi hann forystu Alþýðusambands Íslands harðlega varðandi það hvernig staðið var að síðustu samningagerð. Þær tillögur sem VLFA lagði fram á áðurnefndu þingi voru eins og áður sagði þrjár. Ein þeirra var tillaga um breytingu á lögum um stjórnarkjör á forseta ASÍ eða með öðrum orðum að forsetinn yrði kosinn í allsherjar atkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna ASÍ en ekki inni á lokuðu þingi sambandsins. Önnur tillagan laut að ályktun um afnám verðtryggingar og að þak yrði sett á húsnæðisvexti til einstaklinga. Og þriðja tillagan laut að lífeyrismálum eða með öðrum orðum að fyrirhuguð hækkun iðgjalds úr 12 í 15,5% renni frekar í séreign heldur en inn í samtryggingarkerfið. Rétt er að það komi skýrt fram að VLFA var eina aðildarfélagið af 52 aðildarfélögum sem lagði fram tillögur á þessu þingi. Eðli málsins samkvæmt þurfti formaður að gera ítarlega grein fyrir þessum tillögum og færa fyrir þeim góð og gild rök.

Nú hefur komið í ljós að þessi barátta Verkalýðsfélags Akraness á þinginu hefur fallið í grýttan jarðveg hjá miðstjórn Alþýðusambands Íslands því að á fyrsta fundi miðstjórnar sem haldinn var 24. október síðastliðinn kemur eftirfarandi fram í fundargerð:

Gangrýnt var að ákveðinn aðili hefði nánast tekið þingið í gíslingu með endalausum og síendurteknum ræðuhöldum sem tekið hefðu upp mikinn tíma, tafið þingstörfin og haft áhrif á möguleika annarra til að tjá sig. Þá hefði framganga viðkomandi einkennst af hroka og ókurteisi í garð þingforseta og annarra þingfulltrúa. Í því sambandi varð nokkur umræða um lýðræði á samkomum eins og þingum ASÍ hversu langt ætti leyfa einum eða fáum einstaklingum að sýna þingstjórnendum og fulltrúum vanvirðingu með því að virða ekki tímamörk og almennar fundarreglur. Einnig kom fram að slík framganga væri ekki til þess fallin að auka virðingu þingfulltrúa eða stuðning við málflutning viðkomandi“.

Já, miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir að formaður Verkalýðsfélags Akraness hafi tekið þing Alþýðusambandsins í gíslingu og hafi tafið þingstörfin og haft áhrif á möguleika annarra til að tjá sig. Málflutningur hans á að hafa einkennst af hroka og ókurteisi, meðal annars í garð þingforseta. Á þessari forsendu hafði formaður félagsins samband við Ásgerði Pálsdóttur sem að gegndi starfi þingforseta á áðurnefndu þingi og bar þessar ásakanir undir hana. Það er skemmst frá því að segja að hún kannast á engan hátt við það að formaður félagsins hafi sýnt henni hroka eða vanvirðingu á þessu þingi og sagði hún að hann hefði virt allar reglur og þau fundarsköp sem að í gildi eru fyrir ársfundi ASÍ. Hún vísaði því alfarið á bug sem fram kemur í þessari fundargerð miðstjórnar varðandi þetta mál og reyndar skildi hún ekki af hverju þetta kæmi fram í fundargerð miðstjórnar með þessum hætti því þetta ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Það er hins vegar með ólíkindum á hvaða vegferð miðstjórn ASÍ og æðsta forysta verkalýðshreyfingarinnar er því það er ekki bara talað um að formaður VLFA hafi tekið þingið í gíslingu heldur kemur einnig fram í fundargerðinni með hvaða hætti sé nánast hægt að koma í veg fyrir að menn geti tjáð sig á þessum þingum ef orðin í fundargerðinni eru rétt skilin. Var VLFA að taka þingið í gíslingu með því að spyrja hvort afnema ætti verðtryggingu á neytendalánum og setja þak á húsnæðisvexti til almennings? Var þingið tekið í gíslingu þegar félagið lagði fram tillögu um breytingar á lögum ASÍ um að forseti skuli kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna? Er það að taka þingið í gíslingu að spyrja þingfulltrúa hvort þeir vilji frekar setja aukið framlag í lífeyrissjóðina inn í séreignina en í samtrygginguna? Er það að taka þingið í gíslingu að fara yfir samræmdu launastefnuna og gagnrýna það sem að þar fór miður? Nei, að sjálfsögðu kallast þetta ekki að taka þingið í gíslingu. Þetta er hinn rétti vettvangur til að taka umræðu um þessi málefni, það er á þingi Alþýðusambands Íslands. Þessi fundargerð miðstjórnar sýnir svo ekki verður um villst á hvaða vegferð þessi hreyfing er. Já, það á að reyna að koma í veg fyrir að menn geti lagt fram tillögur og ályktanir og komið á framfæri málefnalegri gagnrýni á Alþýðusamband Íslands. Það sorglega í þessu öllu saman var að í staðinn fyrir að taka alvöru málefnalega umræðu af hálfu forystu ASÍ á þinginu þá koma menn frekar og gagnrýna það inni á miðstjórnarfundi sambandsins þar sem formaður VLFA var ekki til andsvara.

Málið er að allur ársfundur Alþýðusambands Íslands var tekinn upp á myndband. Á þeirri forsendu skorar formaður Verkalýðsfélags Akraness á forseta Alþýðusambands Íslands að birta fundinn í heild sinni inni á vef Alþýðusambandsins til að sýna hinum almenna félagsmanni þær umræður sem fram fóru á fundinum. Formaður þekkir allt sitt heimafólk og að sjálfsögðu eru ekki miklar líkur á því að við beiðni formannsins verði orðið. En formaður hefur sent forseta Alþýðusambands Íslands kröfu um það að fá allar ræður og andsvör sem formaðurinn flutti á þinginu afhent í formi upptöku þar svo hann geti sýnt hinum almenna félagsmanni innan ASÍ fyrir hvað hann var að berjast og afsannað að hann hafi tekið þingið í gíslingu eða sýnt meðal annars þingforseta einhvern hroka eða vanvirðingu. Þetta vill formaður VLFA gera þrátt fyrir að nú liggi fyrir frá þingforsetanum að slíkt eigi ekki stoð í raunveruleikanum. Það er dapurt að æðsta forysta ASÍ geti ekki tekið málefnalegri gagnrýni á þeim vettvangi sem hún á að fara fram eins og til dæmis á þingi ASÍ og skríði frekar ofan í holu sína og gagnrýni formann VLFA inni á lokuðum miðstjórnarfundi ASÍ. Slíkt er ekki stórmannlegt.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image