• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Oct

Miðstjórn ASÍ hafnar tillögu um að forseti ASÍ verði kosinn með allsherjarkosningu

Frá hruni hefur orðið umtalsverð lýðræðisvakning á meðal almennings hér á landi og hefur ákall frá þjóðinni hvað aukið lýðræði varðar verið mjög áberandi á liðnum árum. Það hefur verið ákall á meðal hins almenna félagsmanns innan ASÍ að lýðræði í verkalýðshreyfingunni verði aukið og m.a. er lýtur að kjöri forseta Alþýðusambands Íslands, en í dag er kosningafyrirkomulag skv. lögum ASÍ með þeim hætti að hann er kosinn inni á þingum sambandsins á tveggja ára fresti.

Á þessari forsendu ákvað stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness að leggja fram tillögu um lagabreytingu er lýtur að kjöri forseta ASÍ. Lagabreytingin lýtur að því að forseti ASÍ verði kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna Alþýðusambands Íslands en ekki á lokuðu þingi sambandsins eins og nú er. Í ljósi þessara háværu radda m.a. frá félagsmönnum VLFA um breytingu á kosninu forseta ASÍ ákvað Verkalýðsfélag Akraness að láta Capacent Gallup gera könnun á því hvort vilji væri á meðal almennings til að kjöri forsetans yrði breytt með þeim hætti að hann verði kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Spurningin sem lögð var fyrir í þessari skoðanakönnun hljóðaði með eftirfarandi hætti: Vilt þú að lögum ASÍ verði breytt þannig að kosið verði um forseta ASÍ í allsherjarkosningu á meðal félagsmanna ASÍ, eða lög ASÍ verði óbreytt þannig að forseti ASÍ verði kosinn á þingi ASÍ? Niðurstaðan var afgerandi, en 87,6% af þeim sem tóku afstöðu vilja að forsetinn verði kosinn í allsherjarkosningu og að lögunum verði breytt. Einungis 12,4% vilja óbreytt fyrirkomulag. Skýrara getur þetta vart orðið, viljinn um lýðræðisaukningu innan ASÍ kom skýrt fram í þessari skoðanakönnun.

Það voru mikil vonbrigði með umsögn miðstjórnar Alþýðusambands Íslands varðandi þessa tillögu, en miðstjórn Alþýðusambandsins hafnar þessari tillögu að lagabreytingu um að forsetinn verði kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu, en fram kemur í umsögn miðstjórnar að það fyrirkomulag að forseti sambandsins verði kjörinn í leynilegri atkvæðagreiðslu allra þingfulltrúa á þingum ASÍ samræmist best hlutverki hans innan skipulags ASÍ. Það er formanni VLFA hulin ráðgáta hví miðstjórn leggst gegn þessari tillögu í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að það er gríðarlega mikilvægt fyrir forseta ASÍ á hverjum tíma fyrir sig að hafa sterkt félagslegt umboð sinna félagsmanna á bak við sig og slíkt gerist svo sannarlega með breytingu á lögum um að forsetinn verði kjörinn í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna ASÍ. Í dag eru um 100.000 innan ASÍ, en það kosningafyrirkomulag sem nú er við lýði gerir það að verkum að einungis 0,30% félagsmanna ASÍ kjósa sér sinn forseta. Slíkt er ólíðandi að mati stjórnar og trúnaðarráðs VLFA.

Hins vegar trúir formaður VLFA ekki öðru en að þingfulltrúar Alþýðusambandsins muni leggja þessari lagabreytingu lið, í ljósi áðurnefndrar skoðanakönnunar og þeirri lýðræðisvakningu sem er í íslensku samfélagi um þessar mundir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image