• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Oct

Þing Alþýðusambands Íslands hefst á morgun

Á morgun hefst þing Alþýðusambands Íslands og mun standa yfir í þrjá daga, en Verkalýðsfélag Akraness á 6 fulltrúa á þessu þingi. Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness mun leggja fram þrjár tillögur á þessu þingi, tvær ályktanir og eina lagabreytingu. 

Tillagan að lagabreytingu er fólgin í því að lögum ASÍ verði breytt þannig að forseti ASÍ verði kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna ASÍ en ekki aðeins á meðal fulltrúa á þingi sambandsins eins og nú er. Ástæða þessarar tillögu VLFA er einfaldlega sú að mjög mikilvægt er að forseti ASÍ á hverjum tíma fyrir sig sé kjörinn á meðal allra félagsmanna ASÍ, enda þarf forsetinn að hafa gríðarlega sterkt félagslegt umboð á bak við sig. Með allsherjarkosningu er óhætt að segja að forsetinn myndi njóta slíks umboðs. Það var hins vegar dapurlegt að miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar þessari tillögu um aukið lýðræði við kjör á forseta ASÍ og kemur það formanni verulega á óvart að miðstjórn ASÍ skuli ekki vera tilbúin að taka þátt í lýðræðisvakningu almennings í þessu landi.

Einnig leggur félagið fram ályktun um afnám verðtryggingar, en allar skoðanakannanir hafa sýnt að yfirgnæfandi meirihluti vill að þetta óréttlæti í neytendalánum til einstaklinga verði afnumið, enda hefur verðtryggingin leikið skuldsett heimili skelfilega á undanförnum árum og áratugum og farið eins og skýstrókur um íslensk heimili, sogað allan eignarhluta frá heimilunum og fært hann til fjármálafyrirtækja, erlendra vogunarsjóða og þeirra sem eiga fjármagnið hér á landi.

Þriðja tillagan sem félagið leggur fram lýtur að lífeyrismálum, en það er mat stjórnar og trúnaðarráðs VLFA að lífeyriskerfið þurfi að skoða í heild sinni, enda er kerfið ekki sjálfbært eins og það er í dag en lífeyrissjóðskerfið vantar um 700 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar og þar af vantar lífeyrissjóði innan ASÍ 119 milljarða. Frá hruni hafa lífeyrissjóðir innan ASÍ skert réttindi sinna félagsmanna um 130 milljarða króna vegna þess gríðarlegs taps sem varð á eignarsafni sjóðanna á hrunárunum og er þessi niðurskurður gerður til að laga tryggingafræðilegan halla sjóðanna. Eins og áður sagði þá vantar 119 milljarða til viðbótar til að kerfið standi undir sér. Á þeirri forsendu þarf svo sannarlega að endurskoða þetta kerfi algjörlega frá grunni. Bara til að fólk átti sig á þeirri gríðarlegu skerðingu sem orðið hefur á lífeyrisréttindum félagsmanna innan ASÍ frá hruni þá nemur þessi skerðing 14 milljörðum meira en allur niðurskurður íslenska ríkisins frá hruni, en sá niðurskurður nemur 116 milljörðum. En hér er verið að tala um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslunni o.s.frv. Á þessu sést að sjálfbærni lífeyrissjóðakerfisins er ekki til staðar eins og það er í dag enda vantar eins og áður hefur komið fram 700 milljarða til að kerfið geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðsfélögum.

Það vekur hins vegar umtalsverða furðu hjá formanni félagsins að af 50 aðildarfélögum ASÍ virðist einungis eitt stéttarfélag hafa skilað tillögum að lagabreytingum og ályktunum inn á þetta þing, en það er Verkalýðsfélag Akraness sem það gerði og á allar þrjár tillögurnar sem verða til umfjöllunar á þessu þingi. Formaður spyr sig, hví koma engar tillögur og ályktanir frá öðrum félögum ASÍ, er það einfaldlega vegna þess að reynslan sýnir að ef tillögurnar þóknast ekki forystu ASÍ, þá fá þær ekkert brautargengi? Alla vega er það mjög undarlegt að aðildarfélögin skuli ekki sjá sig knúin til að leggja fram ályktanir á þriggja daga þingi ASÍ eins og t.d. um skuldavanda heimilanna, lágmarkslaun, þær skefjalausu verðhækkanir sem almenningur hefur mátt þola o.s.frv.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image