• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Oct

Átakaþingi ASÍ lauk á föstudaginn

Þingi Alþýðusambands Íslands lauk á föstudaginn en það hafði staðið yfir frá miðvikudegi. Það er skemmst frá því að segja að þetta var átakaþing enda lagði Verkalýðsfélag Akraness fram þrjár tillögur og ályktanir fyrir þingið og það er einnig skemmst frá því að segja að engin þeirra hlaut brautargengi. Fyrsta tillagan laut að lagabreytingum ASÍ sem var fólgin í því að forseti sambandsins yrði kjörinn í allsherjar atkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna ASÍ en ekki inni á þingum sambandsins eins og nú væri. Formaður VLFA gerði grein fyrir þessari tillögu og benti meðal annars á þá miklu lýðræðisvakningu sem væri að eiga sér stað í íslensku samfélagi þar sem krafan væri skýr um að auka beint lýðræði á öllum sviðum. En því miður þá voru þónokkrir forystumenn innan Alþýðusambandsins sem töluðu þessa tillögu niður sem varð þess valdandi að hún fékk ekki hljómgrunn eins og áður hefur komið fram. Það er með ólíkindum að þessi tillaga hafi verið felld í ljósi þeirrar staðreyndar að Capacent Gallup gerði könnun fyrir VLFA fyrir rúmri viku síðan þar sem vilji fólks var afgerandi en 88% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar vildu að forseti sambandsins yrði kjörinn í allsherjar atkvæðagreiðslu. Enn og aftur sést með afgerandi hætti sú djúpa gjá sem er á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystu sambandsins.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness lagði einnig fram tillögu er laut að lífeyrismálum og gekk sú tillaga út á það að fyrirhuguð hækkun á iðgjöldum í lífeyrissjóð úr 12 í 15,5% renni frekar í séreign starfsmanna heldur en í samtrygginguna en formaður færði gríðarlega sterk rök fyrir því að slíkt væri heppilegra fyrir hinn almenna launamann. Formaður rakti þá grafalvarlegu stöðu sem er í lífeyrissjóðskerfinu og einnig sýndi hann fram á það með afgerandi hætti að það loforð sem forysta ASÍ hefur haldið á lofti um að verið sé að jafna réttiindi við opinbera starfsmenn með því að hækka iðgjaldið um 3,5% standist ekki eina einustu skoðun og sé algjör blekkingarleikur gagnvart íslensku launafólki. Enda gekk formaður hart að forseta Alþýðusambandsins hvað þetta varðar og kom í ljós í nefndarstarfinu að forsetinn viðurkenndi að með því að hækka framlagið upp í 15,5% væri ekki verið að jafna lífeyrisréttindi. Formaður fór yfir það með þingfulltrúum að samkvæmt skýrslu fjármálaeftirlitsins væri búið að skerða réttindi sjóðsfélaga innan ASÍ um 130 milljarða frá hruni sem er 14 milljörðum meira heldur en heildar niðurskurður íslenska ríkisins frá sama tímabili. Já takið eftir, íslenska ríkið er búið að skera niður í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslunni og víðar um 116 milljarða en réttindi sjóðsfélaga innan ASÍ eru búin að skerðast um 130 milljarða. Formaður benti líka á það að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða innan ASÍ væri neikvæð um 119 milljarða og á þeirri forsendu væri það lágmark að stjórnendur sjóðanna sýndu fram á sjálfbærni kerfisins áður en þeir færu að krefjast þess að launafólk setti meira inn í þessa hít. Því miður fékk þessi tillaga ekki heldur brautargengi enda lögðust áhrifamenn innan verkalýðshreyfingarinnar hart gegn henni.

Þriðja tillagan sem stjórn og trúnaðarráð VLFA lagði fram var um afnám verðtryggingarinnar en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá sýna allar skoðanakannanir að almenningur hér á landi vill að verðtryggingin verði afnumin í eitt skipti fyrir öll og hafa þær skoðanakannanir sýnt allt að 80% séu því fylgjandi. Formaður rakti hvernig verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili en frá 1. janúar 2008 hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um 400 milljarða bara vegna verðtryggingarinnar þar sem hún hefur farið eins og skýstrókur um íslensk heimili, sogað allan eignarhlut í burtu og fært hann yfir til bankanna, erlendra vogunarsjóða og þeirra sem eiga fjármagnið í þessu landi. En varðmenn verðtryggingarinar, forseti Alþýðusambands Íslands og hans helstu bandamenn leggjast alfarið gegn því að verðtryggingin verði afnumin og tekin verði staða með almenningi og á þeirri forsendu var þessi tillaga felld, reyndar naumlega, sem er miður.

Þetta þing sýnir svo ekki verður um villst það sem fram kom í rannsóknarskýrslu Alþingis að eitt af aðalvandamálum íslensks samfélags væri hjarðhegðun og foringjaræði enda er það óskiljanlegt að afgreiðslur inni á þessu þingi séu ekki í neinu samræmi við það sem er að gerast á meðal hins almenna félagsmanns innan ASÍ, svokallaðrar grasrótar. Það er mat formanns að hafi gjáin á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystunnar verið djúp fyrir þetta þing þá er hún orðin að hyldýpi eftir þingið.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image