• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Oct

Formaður VLFA hefur sent skýr skilaboð til forstjóra Festu lífeyrissjóðs varðandi hlutabréfaútboð Eimskips

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hafði samband við forstjórann Gylfa Jónasson sem stýrir Festa lífeyrissjóði sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að. Formaðurinn tjáði honum með afgerandi hætti að ef lífeyrissjóðurinn Festa muni taka þátt í kaupréttarútboði á fyrirtækinu Eimskip þá mun félagið grípa til róttækra aðgerða sem gætu verið fólgnar í því að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem eru aðilar að Festu lífeyrissjóði gangi í annan lífeyrissjóð.

Forstjórinn tjáði formanni að hann hefði sent skilaboð út til stjórnarmanna sjóðsins í gær varðandi þetta útboð og mun niðurstaða liggja fyrir klukkan 14 í dag um hvað sjóðurinn muni gera varðandi þetta útboð. Það er alveg morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun og ætlar sér ekki að sætta sig við að verið sé að fjárfesta í fyrirtæki sem ætlar að rétta lykilstjórnendum Eimskips kaupréttarsamninga á silfurfati á sama tíma og sjóðurinn hefur tapað 500 milljónum króna vegna gjaldþrots Eimskips á sínum tíma. En lífeyrissjóðirnir töpuðu á gjaldþroti Eimskips hátt í 15 milljörðum króna samtals og á þeirri forsendu meðal annars er það skylda lífeyrissjóðskerfisins að senda skýr skilaboð út til fyrirtækja um að sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum muni ekki sætta sig við að græðgisvæðingin skjóti aftur rótum inni í þessum fyrirtækjum.

Ef það verður niðurstaðan eins og áður sagði að Festa lílfeyrissjóður muni fjárfesta í þessu fyrirtæki þá mun Verkalýðsfélag Akraness boða til áríðandi fundar með sínum sjóðsfélögum þar sem því verður beint til félagsmanna að greiða inn í annan lífeyrissjóð. Hins vegar er tilfinning formanns sú að stjórn Festu muni verða við þessari beiðni VLFA og taka ekki þátt í þessu útboði en rétt er að minna á að formaður gerði þessa kröfu á sjóðinn í júlí síðastliðnum þegar það lá fyrir að þessir kaupréttarsamningar yrðu að veruleika. En eins og áður sagði þá mun formaður fá svar klukkan 14 í dag um hvort Festa lífeyrissjóður muni taka þátt í þessu útboði eður ei.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image