• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Oct

Hvar er skjaldborgin?

Í fréttum hefur komið fram að Íslandsbanki hefur hafið endurútreikning á lánum einstaklinga og fyrirtækja sem bankinn telur að falli undir dóma Hæstaréttar frá 15. febrúar og 18. október sl. Um er að ræða ólögmæt gengistryggð lán sem lántakar hafa greitt af í samræmi við gildandi skilmála á hverjum tíma.

Það gildir hins vegar ekki um öll fjármögnunarfyrirtækin eins og t.d Lýsingu sem hefur sagt að  þar sé ekki talið að dómur Hæstaréttar á fimmtudag um gengistryggð lán eigi ekki við um lánasafn Lýsingar og þar verði því ekki ráðist í endurútreikninga.  Með öðrum orðum Lýsing neitar að skila þýfinu til baka þrátt fyrir dóm Hæstaréttar.

En hvar eru Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, stjórnvöld og Alþingi þegar kemur að því að verja almenning gagnvart því ofbeldi sem Lýsing sýnir sínum viðskiptavinum? Það eru þessir aðilar sem bera ábyrgð á því að vextir Seðlabankans voru látnir gilda afturvirkt.  Eru menn búnir að gleyma að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sendu fjármálastofnunum leiðbeinandi tilmæli um að miða ætti við vexti Seðlabankans afturvirkt eftir að Hæstiréttur hafði dæmt gengistryggðu lánin ólögleg, en þessi tilmæli voru send út 30. júní 2010.

 

Skjaldborgin var um fjármálakerfið

Eftir að Hæstiréttur var búinn að dæma gengistryggðu lánin ólögleg í júní 2010 fóru stjórnvöld á fulla ferð að slá skjaldborg um fjármálastofnanir á kostnað almennings og milda áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálastofnanir. Ríkisstjórnin ákvað að fótum troða loforðið um skjaldborg utan um heimilin og var það gert meðal annars með svokölluðum Árna Páls lögum nr. 151/2010. Í þeim lögum voru vextir Seðlabankans látnir gilda afturvirkt á þessi ólöglegu gengistryggðu lán en þeir vextir voru eins og allir vita mun óhagstæðari en þeir erlendu vextir sem voru á gengistryggðu samningunum.  Rétt er í þessu samhengi að rifja upp ummæli Gylfa Magnússonar fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra frá því í júní 2010 en í viðtali við vísir.is segir Gylfi það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir standi.  Fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sagði einnig í þessu viðtali að ríkisstjórnin þurfi auðvitað að haga sér á ábyrgan hátt og koma í veg fyrir að slík niðurstaða ógni fjármálastöðugleika. „Það er kannski fyrst og fremst það sem við erum að reyna að ná fram," sagði Gylfi Magnússon í júní 2010. Þessi ummæli fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sýna svo ekki verður um villst þann hug sem stjórnvöld bera til heimila, fyrirtækja og einstaklinga.

Já, íslensk stjórnvöld fengu kaldan hroll þegar dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í júní 2010 um ólögmæti gengistryggðu lánanna, stjórnvöldum hugnaðist það alls ekki að fjármálafyrirtækjum væri gert að fara að lögum og skila almenningi þýfinu til baka. 

Hugsið ykkur þessi ummæli fyrrverandi  efnahags- og viðskiptaráðherra frá því í júní 2010 þar sem ráðherrann segir það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir standi og að ríkisstjórnin þurfi auðvitað að haga sér á ábyrgan hátt og koma í veg fyrir að slík niðurstaða ógni fjármálastöðugleika. 

Það er orðið morgunljóst að stjórnvöld hugsuðu bara um eitt, að slá skjaldborg um fjármálafyrirtækin og erlenda vogunarsjóði en skuldsettri alþýðu mátti fórna á altari ólaga sem sett voru á til að reyna að koma í veg fyrir fjárhagslegt tjón fjármálastofnanna og erlendra vogunarsjóða. Svo vilja þessi stjórnvöld kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð. Það er einnig morgunljóst að áðurnefnd ummæli ráðherrans sanna svo ekki verður um villst um hvílík öfugmæli það eru að kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð.

Það ofbeldi sem íslensk heimili hafa mátt þola af hálfu stjórnvalda á sér vart hliðstæðu því það liggur fyrir að fjölmargir lögspekingar og aðrir aðilar sem komu á fund Alþingis vöruðu í umsögnum sínum eindregið við því að umrædd lög Árna Páls stæðust alls ekki lög. Þrátt fyrir þessar aðvaranir voru Árna Páls lögin sett á. Það er bæði nöturlegt og dapurlegt til þess að vita að það hefur aldrei staðið til hjá stjórnvöldum að slá skjaldborg um heimilin eins og þessi upprifjun sýnir svo ekki verður um villst.  

 

Enginn ber ábyrgð

Formaður Verkalýðsfelags Akraness spyr sig, hvernig í ósköpunum stendur á því að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sem komu með leiðbeinandi tilmæli um að vextir Seðlabankans skyldu gilda afturvirkt skuli komast upp með að bera ekki nokkra einustu ábyrgð á þessum tilmælum sínum, tilmælum sem voru algjörlega byggð á sandi. Formaðurinn spyr sig einnig hvernig má það vera að stjórnvöld og Alþingi setji lög á þrátt fyrir að allir færustu lögspekingar landsins hafi bent á að Árna Páls lögin stæðust ekki nokkra skoðun og væru ólögleg eins og hæstiréttur hefur nú margsýnt fram á.

Að lokum telur formaður að almenningur þurfi að rísa upp núna og berjast með kjafti og klóm gegn því ofbeldi sem Lýsing er nú að sýna sínum viðskiptavinum því það virðist vera orðið fullreynt að stjórnvöld ætla sér að láta þetta mál átölulaust þrátt fyrir að bera alla ábyrgð á því hvernig það hefur þróast. Því segir formaður, hingað og ekki lengra og með samstöðu getum við brotið þetta ofbeldi Lýsingar á bak aftur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image