• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Aug

Forseti ASÍ hittir stjórn VLFA á morgun

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍGylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍForseti Alþýðusambands Íslands mun funda með stjórn Verkalýðsfélags Akraness á morgun en samkvæmt heimildum félagsins er forsetinn nú í fundaherferð þar sem hann hittir stjórnir aðildarfélaga ASÍ. Málefni sem að forsetinn óskar eftir að fá að ræða við stjórn VLFA um eru kjaramál, atvinnumál, endurskoðun kjarasamninga í janúar og jöfnun lífeyrisréttinda.

Það liggur fyrir að stjórn VLFA hefur gagnrýnt forystu Alþýðusambands Íslands og þar með talið forseta ASÍ harðlega fyrir hin ýmsu mál og er morgunljóst að stjórn félagsins mun koma sínum málefnum og athugasemdum vel á framfæri við forseta ASÍ á fundinum á morgun.

Eins og flestir muna þá gagnrýndi VLFA harðlega samræmdu launastefnuna sem gerð var í maí á síðasta ári, launastefnu sem byggðist á því að allir skyldu fá sömu launahækkanir algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Sem betur fer tókst VLFA að brjóta á bak aftur samræmdu launastefnuna er laut að stóriðjunum á Grundartanga en því miður sogaðist fiskvinnslufólk ofan í þessa samræmdu launastefnu en það er klárt mál að útgerðin hefur svo sannarlega haft svigrúm til að hækka skammarlega lág laun fiskvinnslufólks en það fékkst ekki í gegn vegna samræmdu launastefnunnar. Sem dæmi þá hafa fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki greitt sínu starfsfólki launauppbætur umfram gildandi kjarasamninga á liðnum mánuðum og er það umhugsunarefni fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa ekki gengið harðar að fiskvinnslufyrirtækjum í ljósi þeirra staðreynda að þau koma með áðurnefndar hækkanir. Málið er að sum fiskvinnslufyrirtæki nýta sér þessa láglaunastefnu og greiða ekki uppbætur eins og önnur fiskvinnslufyrirtæki gera og nægir að nefna HB Granda í því samhengi en það fyrirtæki hefur ekki borgað sínu starfsfólki launauppbætur eins og til dæmis Samherji og fleiri stórútgerðir hafa gert fyrir sitt fólk.

Því mun félagið koma því á framfæri að það sé lykilatriði þegar endruskoðun kjarasamninga á sér stað í febrúar að launakjör fiskvinnslufólks verði leiðrétt vegna gríðarlega sterkrar stöðu útgerðarfyrirtækja um þessar mundir. Ef þau geta greitt sér aðrgreiðslur sem nema tugum ef ekki hundruðum milljóna þá hljóta þau að geta lagfært laun fiskvinnslufólks sem eru til skammar eins og áður sagði en starfsmaður í fiskvinnslu er einungis með um 230 þúsund krónur í heildarlaun með bónus eftir 15 ára starf.

Einnig verða lífeyrismál til umræðu en nú hefur ASÍ ýjað að því að hækka lífeyrisaldur og nefnt að samkomulag sé klárt við SA um að hækka iðgjöld í samtrygginguna úr 12% upp í 15,5% á næstu árum og vilja menn meina að verið sé að jafna réttindi við opinbera starfsmenn með þessari hækkun. VLFA hafnar þessu algjörlega og færir sem rök fyrir því að það sé engin trygging fyrir því að verið sé að jafna réttindi við opinbera starfsmenn með því að auka iðgjöldin um 3,5% á meðan ekki liggur fyrir ríkisábyrgð á lífeyri verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eins og hjá opinberum starfsmönnum. Rétt er að minna á í því samhengi að búið er að skerða réttindi verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni og því til viðbótar liggur fyrir að lífeyrissjóðir innan ASÍ eru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu sem nemur 119 milljörðum. Ef atvinnurekendur hafa svigrúm til að bæta í lífeyrisréttindin þá væri miklu nær að það kæmi inn í séreignina heldur en samtrygginguna því séreignin er eyrnamerkt hverjum launamanni og er erfanleg.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image