• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Aug

Hressilegur og kröftugur fundur með forseta ASÍ í gær

Í gær var tæplega þriggja tíma langur fundur með forseta ASÍ haldinn í fundarsal Verkalýðsfélags Akraness en um þessar mundir er forsetinn í fundaherferð með stjórnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Fundarefnin voru kjaramál, atvinnumál, endurskoðun kjarasamninga og jöfnuð lífeyrisréttindi við opinbera starfsmenn.

Það er óhætt að segja að það hafi verið skipst á skoðunum á þessum fundi og það er morgunljóst að oft á tíðum er stjórn VLFA á öndverðum meiði við forystu ASÍ í hinum ýmsu málum er lúta að hagsmunum íslensks launafólks. Á fundinum í gær gagnrýndi formaður félagsins harðlega samræmdu launastefnuna sem gengið var frá í maí í fyrra en í þeirri launastefnu var kveðið á um að flestir íslenskir launþegar fengju sambærilegar launahækkanir óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Forseti ASÍ benti á að fiskvinnslufólk hefði fengið meiri hækkanir heldur en almennt hefði verið samið um en formaður benti forseta á að grundvallaratriðið væri að horfa á þá krónutölu sem fiskvinnslufólk hefði í laun og stöðu íslenskrar útgerðar um þessar mundir. En meðallaun í fiskvinnslu í dag með bónus eru einungis 219 þúsund krónur eftir kjarasamning. Og fiskvinnslukona sem hefur starfað í 20 ár í greininni og náð sér í öll þau réttindi sem standa til boða er einungis með 237 þúsund með bónusgreiðslum. Formaður tjáði forseta að það væri morgunljóst að það hefðu verið gerð mikil mistök að sækja ekki mun fastar að fiskvinnslufyrirtækjum enda hefðu þau svo sannarlega borð fyrir báru og nefndi hann sem dæmi að fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki hafi á undanförnum árum greitt launauppbætur umfram kjarasamninga sem nema yfir einni milljón króna. Þetta sýndi svo ekki væri um villst að það væri svo sannarlega til svigrúm hjá útgerðinni til að leiðrétta laun fiskvinnslufólks. Hins vegar eru fyrirtæki eins og til að mynda HB Grandi sem hafa skýlt sér á bak við kjarasamninginn og neitað alfarið að koma með launauppbætur eins og önnur útgerðarfyrirtæki þó svo að um milljarðahagnað hjá fyrirtækinu sé að ræða og arðgreiðslur upp á hundruðir milljóna til eigenda. Þarna var kjörið tækifæri til að lagfæra laun fiskvinnslufólks svo um munaði en því miður var það tækifæri látið renna úr greipum í þessari svokölluðu samræmdu launastefnu.

Einnig voru lífeyrissjóðsmál umtalsvert til umræðu á fundinum og gagnrýndi formaður félagsins harðlega þá hugmynd að ætla að hækka iðgjöld úr 12% í 15,5% og skýla sér á bak við að hér sé um jöfnuð á lífeyrisréttindum við opinbera starfsmenn að ræða. En þessi hækkun á að koma til framkvæmda á árunum 2014 til 2020. Það er mat formanns að það væri miklu nær að þessi 3,5% sem um ræðir myndu renna í séreign launafólks sem er erfanleg en ekki í samtrygginguna enda hefur staða lífeyrissjóðanna verið með þeim hætti að þeir hafa misst allt traust sjóðsfélaga enda er til að mynda búið að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga innan ASÍ um 130 milljarða frá áramótum og ennþá eru sjóðir á hinum almenna vinnumarkaði með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 119 milljarða. Það má ekki blekkja sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði með því að verið sé að jafna lífeyrisréttindi við opinbera starfsmenn í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að opinberir starfsmenn eru með ríkisábyrgð á sínum lífeyri sem þýðir að það skiptir engu máli hvort lífeyrissjóður þeirra nái 3,5% raunávöxtun eða ekki, reikningurinn er því bara sendur til skattgreiðenda til að mæta þeim mismun sem þar er. Formaður benti forsetanum einnig á að nú hefur Fjármálaeftirlitið krafist þess að lífeyrissjóður opinberra starfsmanna hækki framlag sitt úr 15,5% í 19,5% og var krafa FME að það gerðist í júní í fyrra. Því spurði formaður forseta ASÍ hvernig gæti verið um jöfnuð á lífeyrisréttindum að ræða þegar krafan er að hækka framlag A deildar LSR úr 15,5% í 19,5%. Það er auðvelt að lofa fyrst og skerða svo eins og raunin hefur verið með lífeyrissjóðina á hinum almenna vinnumarkaði.

Stjórn félagsins telur það gríðarlega mikilvægt að lífeyrissjóðskerfið í heild sinni verði endurkoðað frá grunni og farið yfir alla þessa þætti, meðal annars hvort örorkan eigi yfirhöfuð heima inni í lífeyrissjóðunum því eins og fram kom á fundinum í gær þá er örorkubyrgði lífeyrissjóða verkafólks mun hærri en í öðrum lífeyrissjóðum. Slíkt er ekkert annað en óréttlæti því aukin örorkubyrgði þýðir ekkert annað en skerðing á réttindum þeirra sem tilheyra viðkomandi lífeyrissjóðum. Þessa hluti þarf alla að skoða frá grunni með gagnrýni að leiðarljósi.

Formaður telur að það sé ekki ofsögum sagt að stjórn VLFA sé oft á tíðum æði ósammála forystu ASÍ í hinum ýmsu aðgerðum og aðgerðaleysi þegar kemur að bættum hag íslensks launafólks og er félagið algjörlega óhrætt við að láta vel í sér heyra þegar hagsmunir okkar félagsmanna eru í húfi og svo verður áfram um ókomna tíð.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image