• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
May

Þolinmæði smábátasjómanna á þrotum

Það er óhætt að segja að þolinmæði smábátasjómanna sé löngu þrotin en þeir eru eina starfsstéttin hér á landi sem ekki nýtur þeirra lágmarksmannréttinda að hafa kjarasamning sem tryggir þeim hin ýmsu réttindi og kjör eins og allir kjarasamningar gera. Rétt er að geta þess að smábátasjómenn hafa aldrei haft í gildi kjarasamning sem er verkalýðshreyfingunni, smábátaeigendum og samfélaginu öllu til ævarandi skammar. Eins og áður sagði þá eru smábátasjómenn orðnir æfir yfir því hversu hægt gengur að semja um kjarasamning fyrir þá og þeir geta ekki stundinni lengur sætt sig við að hafa ekki gildandi kjarasamning.

Fjölmargir smábátasjómenn hafa haft samband við Verkalýðsfélag Akraness að undanförnu og líst vanþóknun sinni á þeim seinagangi sem viðgengst hjá Landssambandi smábátaeigenda og Sjómannasambandi Íslands en þessir aðilar hafa verið í viðræðum í marga mánuði án nokkurs árangurs. Það voru uppundir 40 smábátasjómenn sem óskuðu eftir inngöngu í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness fyrir nokkrum mánuðum síðan og óskuðu eftir að félagið myndi aðstoða þá við að ganga frá nýjum kjarasamningi. VLFA óskaði eftir viðræðum við Landssamband smábátaeigenda og hafði í hyggju að afturkalla samningsumboðið frá SSÍ. En þar sem Landssamband smábátaeigenda hafnaði viðræðum á meðan þeir væru í viðræðum við SSÍ var ekki grundvöllur fyrir félagið að draga samningsumboðið til baka að svo stöddu.

Íslensk stjórnvöld eiga að sjá til þess að smábátaeigendur fái alls ekki úthlutað aflaheimildum á næsta fiskveiðiári sem tekur gildi 1. september næstkomandi ef ekki verður kominn á samningur á milli aðila. Á fundi sem formaður VLFA sat með Steingrími J. Sigfússyni atvinnumálaráðherra, lýsti hann þessum áhyggjum sínum vegna samningsleysis smábátasjómanna og hvatti Steingrím til að tryggja í núverandi frumvarpi með afgerandi hætti að ekki kæmi til úthlutunar aflaheimilda til smábátaeigenda ef ekki væri búið að ganga frá kjarasamningi. Það var að heyra á ráðherranum að það væri algjörlega óásættanlegt að ekki væri í gildi kjarasamningur og nefndi Steingrímur það að ef ekki tækist að semja um nýjan kjarasamning þá væri ekkert annað í stöðunni fyrir stjórnvöld en að setja lög sem tryggja meðal annars skiptaprósentur smábátasjómanna.

Sumir smábátasjómenn segja að það eina sem smábátaeigendur geti komið sér saman um sé hvað eigi ekki að greiða smábátasjómönnum. Ugglaust koma flestir smábátaeigendur vel fram við sína sjómenn en það er bláköld staðreynd að innan um í þessari grein sem og öðrum eru bikasvartir einstaklingar sem víla sér ekki við að kolbrjóta á sínum starfsmönnum. Það er einnig ömurlegt til þess að vita að smábátasjómönnum er stundum tilkynnt þegar þeir fara á sjó að búið sé að breyta skiptaprósentu og öðrum kjörum og vegna þess að þeir hafa engan kjarasamning í gildi þá geta þeir lítið sem ekkert sagt og ef að þeir segja eitthvað þá eru meiri en minni líkur á því að viðkomandi þurfi að taka pokann sinn. Það er alveg ljóst að Sjómannasamband Íslands verður að hysja upp um sig buxurnar í þessum samningaviðræðum og ef þeir ekki treysta sér til þess að klára kjarasamning þá verða þeir að hleypa öðrum að samningaborðinu. Og það er einnig gríðarlega mikilvægt að smábátasjómennirnir sjálfir sýni sterka samstöðu við að láta þetta grímulausa óréttlæti, sem birtist í því að hafa ekki kjarasamning eins og allir aðrir íslenskir launþegar, yfir sig ganga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image