• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
May

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu samþykkti ályktun varðandi hækkun stjórnarlauna Framtakssjóðs Íslands

Í gær var haldinn ársfundur Lífeyrissjóðs Festu á Grandhóteli. Formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði fram þrjár tillögur á þessum fundi og verður gert betur grein fyrir öllum tillögunum í annarri frétt sem birtist hér á heimasíðunni. Í þessari frétt verður gerð grein fyrir þeirri tillögu sem var samþykkt en það er skemmst frá því að segja að ein tillaga fékkst samþykkt en tvær voru hins vegar felldar.

Sú tillaga sem var samþykkt laut að þeirri ótrúlegu launahækkun sem ársfundur Framtakssjóðs Íslands samþykkti ekki alls fyrir löngu en sú hækkun nam 80% og voru stjórnarlaun hækkuð úr 100 þúsund krónum í 180 þúsund krónur. Rétt er að geta þess að Festa er aðili að Framtakssjóði Íslands og því ber okkur skylda til þess að mótmæla slíkum ofurlaunahækkunum eins og þær sem samþykktar voru hjá Framtakssjóði Íslands. Ályktunin sem var samþykkt hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Ályktun

 

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu krefst þess að stjórn Framtakssjóðs Íslands dragi tafarlaust til baka ákvörðun ársfundar sjóðsins um að hækka stjórnarlaun sjóðsins um 80% eða úr 100 þúsund krónum í 180 þúsund krónur.

Þessi hækkun er sem blaut tuska framan í íslenskt launafólk og er ekki í nokkru samræmi við það sem er að gerast á íslenskum vinnumarkaði og ber skýran vott um alvarlegan siðferðisbrest og græðgi af hálfu þeirra sem samþykktu áðurnefnda hækkun.

Þessi ofurhækkun er ekki í neinu samræmi við þær þrengingar sem launafólk hefur mátt þola á undanförnum mánuðum og árum sem meðal annars hafa birst í skerðingu á lífeyrisréttindum þeirra sem eru aðilar að Framtakssjóði Íslands.

Þetta getur ekki verið hið nýja siðferði sem taka átti upp við stjórnun lífeyrissjóða með því að dengja framan í íslenskt launafólk 80% launahækkun fyrir stjórnarsetu í Framtakssjóði sem gerir það að verkum að stjórnarmenn sjóðsins eru með sem nemur grunnlaunum almenns fiskvinnslumanns.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image