• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
May

6 fulltrúar atvinnurekenda með jafnmikið vægi og 60 fulltrúar sjóðsfélaga - lýðræðislegt ofbeldi

Eins og fram kom í frétt hér á heimasíðunni þá var ársfundur Lífeyrissjóðs Festu haldinn í gær og eðli málsins samkvæmt var staða sjóðsins og úttektarskýrsla sem Landssamband lífeyrissjóða lét gera umtalsvert til umræðu á þessum ársfundi. Formaður félagsins lagði eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni fram þrjár tillögur en tvær þeirra voru hins vegar felldar.

Í úttektarskýrslunni kom fram að Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði tæpum 20 milljörðum króna eða sem nam tæpum 36% af heildareignum sjóðsins. Það var einnig ýjað að því í úttektarskýrslunni að lög um verðbréfaviðskipti er lúta að innherjaupplýsingum hafi verið brotin og á þeirri forsendu lagði formaður félagsins fram tillögu um að fengið yrði óháð lögfræðilegt álit um hvort lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 hafi verið brotin. Tillagan hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Tillaga um óháð lögfræðilegt álit

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu samþykkir að fengið verði óháð lögfræðilegt álit á því hvort lög um verðbréfaviðskipti nr. 108 26. júní 2007 sem lúta að innherjaupplýsingum hafi verið brotin eins og ýjað er að í úttektarskýrslunni um Festu á bls. 97.

Þegar lögfræðiálitið liggur fyrir mun það verða sent öllum aðildarfélögum Lífeyrissjóðs Festu.

--

Í þessu samhengi er rétt að benda á að einn stjórnarmaður í Lífeyrissjóði Festu var einnig stjórnarmaður í Sparisjóði Keflavíkur en Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði tæpum 2 milljörðum króna vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Um þessi mál er ítarlega fjallað í úttektarskýrslunni á bls. 90, 91, 96 og 97. Og á þessum grunni var áðurnefnd tillaga lögð fram.

Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga var felld og það er formanni hulin ráðgáta í ljósi þess að úttektarskýrslan ýjar sterklega að því að þarna hafi lög verið brotin, að fundurinn skyldi ekki vilja fá það á hreint hvort að slíkt lögbrot hafi átt sér stað eður ei. Í atkvæðagreiðslunni kom skýrt fram sá gríðarlegi lýðræðishalli sem er við stjórnun lífeyrissjóða en hjá lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði fara atvinnurekendur með 50% vægi inni á fundunum og því er nánast útilokað fyrir hinn almenna sjóðsfélaga að koma nokkrum tillögum í gegn ef atvinnurekendur eru þeim mótfallnir.

Hin tillagan sem lögð var fram lýtur að gjaldmiðlasamningum en Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði uppundir 4 milljörðum króna vegna gjaldmiðlasamninga. Formaður rakti það ítarlega á fundinum sem fram kemur í úttektarskýrslunni að framkvæmdastjóri sjóðsins var andvígur gjaldmiðlasamningunum strax árið 2006 en einhverra hluta vegna juku menn gjaldmiðlavarnir sjóðsins um 5 milljarða á árinu 2007 og það kemur einnig fram hjá skýrsluhöfundum að sjóðnum mátti vera það ljóst að gríðarleg áhætta var af þessum gjaldmiðlasamningum. Það er einnig rétt að vekja athygli á því að það tapaðist álíka mikið á gjaldmiðlasamningum og skuldabréfum fyrirtækja. Tillagan hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Tillaga um óháð lögfræðilegt álit

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu samþykkir að fá óháð lögfræðilegt álit á því hvort samþykktir sjóðsins og lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (1997 nr. 129) hafi verið brotin vegna gjaldmiðlasamninga sem sjóðurinn gerði.

Það liggur fyrir að tap Lífeyrissjóðs Festu vegna gjaldmiðlasamninga er umtalsvert og einnig er rétt að benda á að þessir samningar voru harðlega gagnrýndir, bæði í Rannsóknarskýrslu Alþingis og Úttektarskýrslu um starfsemi lífeyrissjóðanna. Á þeirri forsendu er mikilvægt að fá óháð álit á því hvort þessir samningar hafi staðist samþykktir sjóðsins og áðurnefnd lög.

Þegar lögfræðiálitið liggur fyrir mun það verða sent öllum aðildarfélögum Lífeyrissjóðs Festu.

 

--

Enn og aftur er það formanni hulin ráðgáta að þessi tillaga skyldi hafa verið felld. Sérstaklega í ljósi þess að hér var einungis verið að kalla eftir því að fá óháð lögfræðilegt álit á því hvort sjóðurinn hafi farið eftir sínum eigin samþykktum og hvort lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóðanna hafi verið brotin. Það er rétt að benda á enn og aftur að Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði 4 milljöðrum króna á gjaldmiðlasamningum sem er ekkert annað en gjaldeyrisbrask. Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir hafa heimild til að dreifa sinni áhættu með því að fjárfesta erlendis og er það gert til þess að mæta til dæmis gengissveiflum. Þess vegna var með ólíkindum hversu miklu sjóðurinn varði í þessar gjaldmiðlavarnir en þær námu 75% af heildar erlendum eignum sjóðsins. Í þessu fólst stórkostleg áhætta sem nú hefur birst sjóðsfélögum með skelfilegum afleiðingum. Því er eðlileg spurning fyrir hinn almenna sjóðsfélaga hvort samþykktir og áðurnefnd lög hafi verið brotin. Enn og aftur komu fulltrúar atvinnurekenda ríðandi fram með atkvæðaspjöld sín en á fundinum í gær voru 6 fulltrúar atvinnurekenda sem höfðu 50% vægi á fundinum þannig að hvert atkvæði frá einum fulltrúa atvinnurekenda virkaði sem 10 atkvæði en fulltrúar sjóðsfélaga voru 60 talsins þannig að það var útilokað og er útilokað fyrir hinn almenna sjóðsfélaga að fá eina einustu tillögu samþykkta ef að atvinnurekendur eru henni andvígir. Þennan lýðræðishalla og þetta lýðræðisofbeldi verður að stöðva í eitt skipti fyrir öll því það er ljóst að iðgjöld sem eru greidd í lífeyrissjóð eru eign sjóðsfélagans og því hefur atvinnurekandinn ekkert með það að gera að vera að ráðskast með fjármuni hins almenna sjóðsfélaga. Það eru ugglaust til dæmi þess að fulltrúi atvinnurekanda sé ekki einu sinni sjóðsfélagi í þeim sjóði sem hann er stjórnarmaður í.

Formaður sagði einnig á þessum fundi að það færi um hann kaldur hrollur að heyra orð eins og framkvæmdastjórinn lét falla um að það væri mikil ábyrgð fólgin í því að stjórna lífeyrissjóði þegar hann rökstuddi launahækkun til stjórnar. Formaðurinn spurði hvar þessi ábyrgð lægi en nú liggur fyrir að lífeyrissjóðskerfið tapaði 500 milljörðum króna og ekki einn einasti framkvæmdastjóri eða forstjóri lífeyrissjóðs hefur borið eina einustu ábyrgð og virðast ekki ætla að bera hana. Hann ítrekaði því þá skoðun sína að allir framkvæmdastjórar og forstjórar lífeyrissjóða eigi að axla sína ábyrgð á þessu grímulausa tapi sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir og segja af sér. Hann sagði einnig að það hafi verið nöturlegt þegar að lífeyrissjóðselítan hafi keypt heilsíðuauglýsingar til að koma því á framfæri að lífeyrissjóðskerfið stæði traustum fótum og ætti heila 2.100 milljarða í eignum. Formaðurinn sagði að það hafi vantað inn í þessa auglýsingu að lífeyrissjóðskerfið vantar 700 milljarða til þess að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar samkvæmt tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðskerfisins í heild sinni. Hvernig í ósköpunum geta menn þá sagt að þetta sé besta kerfi sem til er? Formaðurinn sagði einnig að hann gerði orð Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði við HÍ, að orðum sínum en Stefán sagði í útvarpsviðtali að þegar að þessir menn sem stjórna lífeyrissjóðunum fara að segja að þetta sé besta lífeyrissjóðskerfi í heimi þá eigi allar aðvörunarbjöllum að hringja hjá hinum almenna sjóðsfélaga. Og það er full ástæða til þess að skoða þetta kerfi algjörlega frá grunni og er forgangsverkefni að koma í veg fyrir það að það lýðræðisofbeldi sem birtist með atkvæðagreiðslu atvinnurekenda inni í lífeyrissjóðunum verði stöðvað án tafar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image