• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
May

Öllu lofað en ekkert gerist - óbreyttar skerðingar á atvinnuleysisbótum vegna hlutastarfa

Í byrjun mars benti formaður félagsins á það grímulausa óréttlæti sem væri fólgið í þeirri breytingu að atvinnuleysisbætur skerðast vegna hlutastarfa á þann hátt að alloft verða þeir sem taka hlutastörf með lægri ráðstöfunartekjur en ef þeir væru á 100% atvinnuleysisbótum. Formaður sendi forstjóra Vinnumálastofnunar og velferðarráðherra tölvupóst þar sem athygli var vakinn á þessu skelfilega óréttlæti.

Því var lofað að þetta yrði skoðað og var að heyra á velferðarráðherra að þessu yrði kippt í liðinn og skekkjan leiðrétt sem fyrst eins og fram kom í fréttum í apríl. Orðrétt sagði Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar í viðtali hjá RUV að hann ætti "von á því að þessu verði breytt strax eftir páska með nýrri reglugerð". Formaður spyr sig: Um hvaða páska er forstjóri Vinnumálastofnunar að tala í þessu viðtali?

Það er skemmst frá því að segja að nú, rúmum tveimur mánuðum frá því félagið kom þessari ábendingu á framfæri virðist lítið sem ekkert hafa gerst og þetta miskunnarlausa óréttlæti heldur áfram af fullum þunga.

Formaður félagsins trúir því ekki að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti láti það viðgangast stundinni lengur að höggva í þá sem síst skyldi, sem eru þeir sem eru án atvinnu og eru að reyna að koma sér aftur út á vinnumarkaðinn. En það er morgunljóst að þessi breyting sem varð um áramótin gerir það að verkum að það er ekki nokkur hvati fyrir slíka einstaklinga að þiggja hlutastörf í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að umræddir einstaklingar geta verið með þúsundum ef ekki tugþúsundum lægri tekjur við að taka hlutastörfum í stað þess að vera á 100% atvinnuleysisbótum.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig íslensk stjórnsýsla vinnur, en það lítur út fyrir að allt gerist á hraða snigilsins á meðan líða eins og áður sagði, þeir sem síst skyldi. Það verður að búa til þannig hvata að það sé ávinningur af því að komast aftur út á vinnumarkaðinn, en ekki eins og kerfið vinnur núna, en þar er engan hvata að sjá. Félagið skorar á Vinnumálastofnun og Velferðarráðuneytið að vinna nú eins og menn og afgreiða þetta mál án tafar og leiðrétta þann skaða sem umræddir einstaklingar hafa orðið fyrir aftur til áramóta, en þá breyttust vinnureglur Vinnumálastofnunar með skelfilegum afleiðingum fyrir umrædda einstaklinga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image