• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Apr

Er auðlindagjaldið af sama meiði og kolefnisskatturinn sem átti að leggja á Elkem Ísland?

Á föstudaginn næstkomandi mun Starfsgreinasamband Íslands halda fund með aðildarfélögum sínum þar sem kvótafrumvörpin verða til umræðu og á þeim fundi á að móta afstöðu SGS til fyrirliggjandi frumvarpa.

Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Verkalýðsfélag Akraness þegar að sjávarútvegsmálum kemur, einfaldlega vegna þess að fjölmargir félagsmenn þess vinna við sjómennsku og fiskvinnslu. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð verið hvellskýr þegar kemur að umræðu um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en krafa félagsins hefur verið að hagsmunir sjómanna, fiskvinnslufólks og þjóðarinnar allrar skyldu hafðir að leiðarljósi þegar kemur til breytinga á þessari mikilvægu auðlind okkar.

Formaður hefur verið að kynna sér fyrirliggjandi frumvörp vegna áðurnefndra hagsmuna því það má ekki undir nokkrum kringumstæðum skattleggja þessa grein með þeim hætti að það ógni starfsöryggi og kjörum fiskvinnslufólks og sjómanna. En því miður er æði margt sem bendir til að svo geti orðið en það er himinn og haf sem skilur að þegar kemur að því að meta áhrifin af veiðileyfagjaldinu. Á meðan stjórnvöld halda því fram að auðlindagjaldið sé vel innan viðráðanlegra marka fyrir útgerðina þá segja útgerðarmenn að það muni leiða til fjölda gjaldþrota í greininni og vitna meðal annars í úttekt sem Deloitte gerði á áhrifum veiðileyfagjaldsins. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði fenginn óháður aðili til að meta áhrifin af þessum frumvörpum því eins og áður sagði þá má alls ekki ógna starfsöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hefur einnig verið sú að eðlilegt sé að útgerðir greiði eðlilegt og sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni og einnig að tryggt sé að auðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar. Það er öllum ljóst að afar vel árar nú í íslenskum sjávarútvegi og því er það sorglegt að í síðustu kjarasamningum hafi ekki verið notað það svigrúm sem útgerðin hefur til að lagfæra laun fiskvinnslufólks umtalsvert. Það mátti ekki vegna þess að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins voru búin að móta og meitla í stein svokallaða samræmda launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja eins og til dæmis sjávarútvegsfyrirtækja. Þarna var kjörið tækifæri til að lagfæra kjör fiskvinnslufólks enda eru þau íslenskri verkalýðshreyfingu og fiskvinnslufyrirtækjum til háborinnar skammar. En sérhæfð fiskvinnslukona sem starfað hefur í 15 ár er einungis með grunnlaun upp á 197.500 krónur og því til viðbótar er hún með um 300 krónur á klukkustund þannig að heildarlaun fiskvinnslukonu eftir 15 ára starf eru um 230 þúsund krónur á mánuði. Þetta eru laun sem eru til ævarandi skammar og hafi ASÍ og SA einnig skömm fyrir að hafa ekki notað tækifærið þegar vel árar hjá útgerðinni til að lagfæra laun þessa hóps sem á það svo sannarlega skilið.

Eins og áður sagði þá er mikill ágreiningur um áhrifin af þessu auðlindagjaldi en formaður spyr sig hvort þetta auðlindagjald geti hugsanlega verið af sama meiði og kolefnisskatturinn sem átti meðal annars að leggja á Elkem Ísland, skattur sem hefði gert það að verkum að ekki hefði verið einn einasti möguleiki fyrir Elkem að skila neinum hagnaði því skatturinn var langt umfram þann hagnað sem fyrirtækið hefur skilað árlega. Enda voru forsvarsmenn fyrirtækisins búnir að tilkynna að fyrirtækið myndi flytja starfsemi sína erlendis ef af þessum skatti yrði. Á þessari forsendu óttast formaður VLFA að þessi skattlagning geti ógnað starfsöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks. En eins og áður sagði þá eiga útgerðarmenn að sjálfsögðu að greiða eðlilegan og sanngjarnan skatt fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hvert það hlutfall er liggur ekki fyrir á þessari stundu en mjög mikilvægt er að finna hver sé eðlileg og sanngjörn auðlindarenta sem renni til samfélagsins í heild sinni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image