• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Mar

Skorað á framkvæmdastjóra Festu að segja af sér vegna 20 milljarða króna taps

Í gær var haldinn fundur um lífeyrissjóðsmál er tengjast sjóðnum sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að sem er Festa. En samkvæmt úttektarskýrslunni sem rannsóknarnefndin gerði kemur fram að sjóðurinn hafi tapað tæpum 20 milljörðum eða um 36% af heildareignum sínum.

Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri sjóðsins, gerði grein fyrir úttektarskýrslunni og kom fram í hans máli að hann gerði ýmsar athugasemdir við aðferðafræði nefndarinnar og taldi tapið vera mun minna en fram kæmi í skýrslunni.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði að það væri bláköld staðreynd að tap lífeyrissjóðanna í heild hafi numið tæpum 500 milljörðum króna og það væri grátbroslegt að heyra forstjóra og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna reyna að bera ætíð í bætifláka fyrir slíkt tap. Formaður gagnrýndi lífeyrissjóðskerfið harðlega því aðilar í lífeyrissjóðskerfinu töluðu ætíð um að hér væri besta lífeyrissjóðskerfið í heimi og spurði formaður í því samhengi hvernig stæði á því að lífeyrissjóðskerfið vantaði 700 milljarða króna til að geta staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt ársreikningum 2010. Að eiga rúma 2000 milljarða en vanta 700 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar getur vart verið túlkað sem besta kerfi í heimi. Það liggur fyrir að neikvæð tryggingafræðileg staða lífeyirssjóðsins Festu nemi uppundir 10 milljörðum króna og hjá öllum lífeyrissjóðum innan ASÍ vantar uppundir 120 milljarða til að hægt sé að standa við sínar skuldbindingar.

Það kemur fram í rannsóknarskýrslunni að raunávöxtun lífeyrissjóðsins Festu síðustu 10 ár hafi einungis verið 0,1%. Formaður sagði á fundinum að framkvæmdastjóri sem stjórnaði lífeyrissjóði sem hefði tapað 20 milljörðum króna eða sem nemur 36% af heildareignum sjóðsins ætti skýlaust að segja af sér. En formaður ítrekaði það að það ætti alls ekki bara við framkvæmdastjóra Festu heldur alla aðra framkvæmdastjóra sem hefðu tapað stjarnfræðilegum upphæðum að undanförnu. Það kom einnig fram á fundinum að hugsanlega hefðu verið framin lögbrot er varða verðbréfaviðskipti og er lúta að innherjaupplýsingum. En eins og fram kemur í úttektarskýrslunni (sjá bls. 97) þá liggur fyrir að einn stjórnarmaður sat bæði í Sparisjóði Keflavíkur og einnig sem stjórnarmaður í lífeyrissjóði Festu. En lífeyrissjóðurinn Festa tapaði tæpum 2 milljörðum vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Um þennan þátt er ítarlega fjallað í úttektarskýrslunni og ýjað sterklega að því að þarna hafi lög er lúta að innherjaupplýsingum verið brotin. Það kom fram hjá fundarmönnum að þetta mál þarf svo sannarlega að skoða nánar enda liggur fyrir að lífeyrissjóðurinn Festa fjárfesti í stofnfjárbréfum í Sparisjóði Keflavíkur fyrir tæpar 800 milljónir á árinu 2007 og það er því ólíðandi að hugsanlega hafi lög verið brotin hvað varðar verðbréfaviðskipti sem tengjast bæði Sparisjóði Keflavíkur og lífeyrissjóðnum Festu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image