• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Mar

Verðlagsmál á sjávarafurðum verði rannsökuð opinberlega

Það er óhætt að segja að umfjöllun Kastljóss undanfarin kvöld um verðlagningu og verðmyndun á sjávarafurðum hafi vakið verðskuldaða athygli, enda komu þar fram alvarlegar ásakanir og athugasemdir um hvernig á þessum málum er haldið í íslenskum sjávarútvegi.

Formaður Sjómannasambandsins sagði m.a í þessari umfjöllun að verðmyndun á sjávarafurðum væri í molum, aðkoma sjómanna að verðmyndun væri engin og Verðlagsstofa skiptaverðs sem sér um að ákveða verð á botnfiski væri liðónýt og eftirlitið væri nánast ekkert.

Nú liggur fyrir að stór hluti þess sjávarafla sem veiddur er við Íslandsstrendur er á sömu hendi það er að segja veiðar, vinnsla og sala og það kom fram í umfjöllun Kastljóssins að útgerðin er að færa hagnaðinn af skipunum inn í vinnsluna til að koma sér hjá því að þurfa að greiða sjómönnunum hlutaskiptin. Þetta eru grafalvarlegar ásakanir sem þarna komu fram á hendur útgerðafyrirtækjum og þetta snýst alls ekki bara um að sjómenn séu ekki að fá rétt uppgert, heldur er hér um að ræða ef rétt reynist hagsmuni þjóðarinnar í heild sinni.

Allt á sömu hendi

Hvað þýðir það ef útgerðarfyrirtækin sem eru með veiðar, vinnslu og sölu á sömu hendi eins og t.d í uppsjávarveiðunum færa hagnaðinn í auknum mæli  inn í vinnsluna og greiða sjómönnum lægra fiskverð en þeim í raun ber? Jú, tekjur sjómanna verða lægri sem þýðir að ríkissjóður verður af tekjuskatti, sveitafélögin fá minni útsvarstekjur og hafnargjöld og síðan hefur þetta áhrif á auðlindagjaldið enda reiknast það út frá aflaverðmæti skipanna.

En eru útgerðafyrirtækin að færa hagnaðinn af skipunum inn í vinnsluna?  Já, það er æði margt sem bendir til þess að svo sé.  Ef litið er á nýlokna loðnuvertíð þá kemur í ljós að útgerðarmenn og framkvæmdastjóri LÍÚ tala um að vertíðin hafi skilað um 30 milljörðum í útflutningstekjur af tæplega 600 þúsund tonna loðnukvóta sem veiddur var á yfirstaðinni vertíð.  Einnig kom fram í viðtali á RUV við  Ingimund Ingimundarson hjá HB Granda að þumalputtareglan sé sú að 50 krónur fáist fyrir loðnukílóið að meðaltali og samtals hafi því loðnuvertíðin gefið um þrjátíu milljarða.

Þetta er afar athyglisvert því að þegar skoðað er hvað útgerðin var að borga skipunum fyrir hvert kíló þá kemur í ljós að það er að meðaltali í kringum 26 krónur að teknu tilliti til þess sem fer í bræðslu, frystingu og hrognatöku.  Þetta þýðir að aflaverðmæti skipana af 581 þúsund tonna veiði er 15,1 milljarður, en loðnuvertíðin gaf útgerðinni sem bæði á skipin og vinnsluna rúma 29 milljarða.  Með öðrum orðum þá er vinnslan að skila útgerðinni 14 milljörðum sem er álíka mikið og aflaverðmæti skipanna var. Formaður spyr, getur þetta staðist einhverja skoðun?  Hvernig má það vera að verðið til sjómanna sé einungis 26 krónur á kíló á meðan þeir geta selt það að jafnaði á 50 krónur. 

Formaður félagsins gerir sér algerlega grein fyrir því að það þarf að vera framlegð í vinnslunni en að vinnslan sé að skila nánast jafn miklu og aflaverðmæti skipanna stenst ekki nokkra skoðun að mínu áliti.

Formaður getur ekki séð annað en að útgerðin sé að færa hagnaðinn inní vinnsluna af skipunum til að komast hjá því að greiða hærri laun til sjómanna, sveitafélögum hærri hafnargjöld, ríkinu hærra auðlindagjald og þessu til viðbótar verða ríki og sveitarfélög af skattatekjum vegna þess að laun sjómanna verða lægri fyrir vikið.

Samningaviðræður hvað?

Í Kastljósþættinum var Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ spurður hví Norðmenn gætu greitt rúmar 40 krónur fyrir loðnukílóið á meðan útgerðin hér á landi greiddi sínum skipum 26 krónur og einnig var Friðrik spyrður hvers vegna vinnslan hér væri að greiða erlendu skipunum langtum hærra verð en íslensku skipunum svo tugum prósenta munar.  Friðrik sagði að ástæðan fyrir hærra verði í Noregi væri sú að þar eru veiðar og vinnsla ekki á sömu hendi og því væri það verkefni útgerðarinnar að semja við sjómenn um verðið á hverjum tíma fyrir sig.  Málið er einfalt - í langflestum tilfellum fara engar samningaviðræður fram um verð heldur ákveður útgerðin þetta algerlega einhliða.

Það kemur skeyti um borð í skipin frá útgerðinni sem kveður á um verð. Þetta vita allir sem eru á þessum skipum en eðli málsins samkvæmt þora sjómenn ekki að andmæla þessu á nokkurn hátt af ótta við að vera sagt upp plássinu. Það er rétt að geta þess að þetta sama á við um makríl og síldveiðar á uppsjávarskipunum, ekki bara loðnuveiðarnar.  Það er morgunljóst í mínum huga að þessu fyrirkomulagi verður að breyta tafarlaust og það eiga að vera stéttarfélögin sem semja við útgerðirnar fyrir hönd sinna félagsmanna um fiskverð. Það er alla vega afar ójafn leikur að ætla sjómönnum að semja um fiskverð við sinn vinnuveitenda, því ef þeir eru óánægðir þá eiga þeir svo sannarlega á hættu á að verða reknir.

Formaður félagsins vil taka það skýrt fram að laun sjómanna eru mjög góð núna vegna stöðu íslensku krónunnar en þau hafa alls ekki alltaf verið það og nægir að fara aftur til ársins 2006 þegar gengi íslensku krónunnar var afar óhagstætt sjómönnum.

Þjóðarhagsmunir

Þetta snýst ekki eingöngu um laun sjómanna heldur þjóðarhagsmuni því með því að færa hagnaðinn frá skipunum yfir á vinnsluna er verið að hafa af samfélaginu öllu gríðarlegar upphæðir. Nú hefur verið lagt til á Alþingi að kannað verði hvaða áhrif fyrirhugað auðlindagjald hefur á bankakerfið. Í því samhengi telur formaður fulla ástæðu til að þessi verðlagsmál á sjávarafurðum verði rannsökuð opinberlega og það kannað hversu miklu þjóðarbúið tapar á því að útgerðin skuli færa hagnaðinn inn í vinnsluna til að koma sér hjá því að borga meira til þjóðarbúsins eins og áður hefur verið rakið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image