• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Dec

Miskunnarlaus niðurskurður

Það er óhætt að segja að gríðarlega alvarlegir hlutir blasi nú við Heilbrigðisstofnun Vesturlands ef fyrirliggjandi fjárlög verða samþykkt. En gert er ráð fyrir að stofnunin þurfi að skera niður um allt að 150 til 200 milljónir á næsta ári sem mun hafa þær skelfilegu afleiðingar í för með sér.  En vel á þriðja tug starfsmanna munu missa vinnuna hér á Akranesi  og umtalsverður fjöldi starfsmanna mun verða lækkaður í starfshlutfalli. Þetta eru blákaldar staðreyndir því það er ljóst að það mun þurfa að loka einni deild á sjúkrahúsinu á Akranesi.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á þann miskunnarlausa niðurskurð sem heilbrigðisstofnunin hefur mátt þola og er það mat formanns félagsins að þessi mikli niðurskurður geti leitt til þess að öryggi sjúklinga verði ógnað. Heilbrigðisstofnunin hefur þurft að skera niður, til dæmis á sjúkrasviði frá árinu 2008 um heil 41% en í heildina nemur niðurskurður hjá stofnuninni frá hruni 25%.  

Við Akurnesingar erum afar stoltir af sjúkrahúsi Akraness og þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á og því er það algjörlega óásættanlegt að horfa upp á hvernig er verið að mylja undan þeirri góðu starfsemi sem þar fer fram. Það er algjörlega morgunljóst að Akurnesingar munu ekki horfa aðgerðarlausir á þann mikla niðurskurð sem nú liggur fyrir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og munu bæjarbúar svo sannarlega fylgjast vel með framvindu þessa máls enda er hér um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir samfélagið hér á Akranesi.

Formaður skorar á Alþingi Íslendinga þegar að þriðja umræða um fjárlögin fer fram á næstu dögum, að sjá til þess að slegin verði  skjaldborg utan um heilbrigðisþjónustuna vítt og breitt um landið enda er heilbrigðisþjónustan hornsteinn í hverju samfélagi fyrir sig.

Það er einnig þyngra en tárum taki að sjá þá forgangsröðun sem stjórnvöld nota þegar kemur að niðurskurði í heilbrigðiskerfinu því það er formanni Verkalýðsfélags Akraness óskiljanlegt að horfa upp á fjárveitingar eins og til dæmis til Sinfóníuhljómsveitar Íslands upp á 800 milljónir á ári og 150 milljónir sem fara til Íslensku óperunnar á sama tíma og þessi miskunnarlausi niðurskurður fer fram á heilbrigðisþjónustu vítt og breitt um landið. Það er einnig hægt að benda á þær gríðarlegu upphæðir sem það kostar að halda úti sendiráðum vítt og breitt um heiminn en sá heildarkostnaður nemur í kringum 2,7 milljarða. Einnig er umhugsunarefni sá gríðarlegi kostnaður sem fylgir aðildarumsókn að ESB en samkvæmt fjárlögum nemur sá kostnaður í kringum 1,4 milljarð á þessu ári. Það hlýtur að vera mun mikilvægara að halda úti öflugu heilbrigðiskerfi heldur en þessum atriðum sem hér hafa verið nefnd, þó með fullri virðingu fyrir þeim. 

Ríkisstjórnin sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti og síðast en ekki síst velferð, getur ekki lagt fram frumvarp sem gerir það að verkum að verið sé að höggva í þá grunnstoð velferðarinnar sem heilbrigðisþjónustan er. Því ítrekar formaður þá áskorun sína að Alþingi Íslendinga sjái til þess að heilbrigðiskerfinu verði hlíft við þessum miskunnarlausa niðurskurði eins og kostur er því ekkert er eins mikilvægt okkur Íslendingum eins og góð heilbrigðisþjónusta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image