• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Dec

Blóðugar uppsagnir

Það er óhætt að segja að tíðindi úr atvinnulífinu hér á Akranesi hafi verið skelfileg að undanförnu en 70 manns hefur verið tilkynnt um blóðugar uppsagnir á undanförnum vikum. Þessar uppsagnir tengjast fyrirtækjum vítt og breitt í okkar samfélagi en 16 manns hefur verið sagt upp hjá Sementsverksmiðjunni, 14 manns hjá trésmíðafyrirtækinu TH, Elkem Ísland hefur sagt upp 5 manns og nú síðast hefur verið tilkynnt að um 30 manns muni missa vinnuna á Sjúkrahúsi Akraness ásamt því að umtalsverður fjöldi starfsmanna verður lækkaður í starfshlutfalli.

Svona gríðarlegar uppsagnir hafa ekki átt sér stað í einum mánuði á atvinnusvæði okkar Akurnesinga frá hruni en í október voru 199 manns án atvinnu á Akranesi og því ljóst að þessi mikli fjöldi sem nú er að missa vinnuna mun hækka atvinnuleysistölur hér á Akranesi gríðarlega.

Það er því undarlegt að hlusta á Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, tala sífellt um að nú sé landið tekið að rísa en það er mat formanns félagsins að það væri nær að segja landið frýs, sérstaklega í ljósi þeirra bláköldu staðreynda sem hér hafa verið raktar. Fjármálaráðherrann hefur einnig talað um aukinn hagvöxt, hagvöxt sem byggist fyrst og fremst á einkaneyslu vegna þess að íslenskt launafólk gengur nú miskunnarlaust á séreignarsparnað sinn til að sjá sér og sínum farborða en bara á þessu ári hefur launafólk tekið út séreignarsparnað sem nemur 25 milljörðum króna.

Það er orðið löngu tímabært að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði, en nú eru um 12 þúsund manns án atvinnu hér á landi.   Það er morgunljóst að það á eftir að fjölga allverulega á atvinnuleysisskránni á næstu mánuðum, þegar áhrifin af þeim miskunnarlausa niðurskurði sem verið hefur í heilbrigðiskerfinu fara að skila sér.

Hvernig má það vera að hundruðum milljóna af almennafé sé dælt til eftirlitsstofnana eins og t.d. Fjármálaeftirlitsins á sama tíma og höggvið er skefjalaust í okkar grunnstoð sem er okkar góða heilbrigðiskerfi.  Einnig er rétt að benda á að í nýgerðu fjárlagafrumvarpi voru  íslenskir skattgreiðendur látnir ábyrgjast allt að 30 milljarða króna vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Þetta gerist á sama tíma og verið er að skera niður í íslensku heilbrigðiskerfi eins og enginn sé morgundagurinn.  Formaður spyr hvers lags forgangsröðun sé fólgin í slíkum aðgerðum.

Það er orðið fátt sem kemur formanni félagsins á óvart þegar íslensk stjórnvöld eru annars vegar og nægir að nefna í því samhengi að það er með ólíkindum að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju skuli ekki einu standa við samkomulag sem gert var við verkalýðshreyfinguna vegna launahækkunar til öryrkja og atvinnulausra. Nú er mál að linni og stjórnvöld taki stöðu með íslenskum almenningi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image