• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Dec

Áskorun til fyrirtækja

Nokkur útgerðarfyrirtæki greiða landverkafólki launauppbót í desemberNokkur útgerðarfyrirtæki greiða landverkafólki launauppbót í desemberÞað er afar ánægjulegt að sjá að nokkur útgerðarfyrirtæki, eins og Síldarvinnslan, Eskja, Brim og Samherji, hafa tilkynnt fiskvinnslufólki að þau ætli að greiða þeim launauppbót umfram gildandi kjarasamninga. Þessar greiðslur nema í sumum tilfellum 300 þúsund krónum nú í desember. Sum þessara fyrirtækja greiddu einnig uppbót í júní og nam sú uppbót rúmum 60 þúsund krónum.

Formanni reiknast til að einstök fiskvinnslufyrirtæki hafi greitt landverkafólki allt að 1 milljón króna á síðustu þremur árum umfram gildandi kjarasamninga. Fyrir slíkt ber að þakka enda kemur það þeim starfsmönnum sem starfa í fiskvinnslunni afar vel, enda launakjör fiskvinnslufólks ekki til að hrópa húrra fyrir.

Hins vegar hryggir það formann Verkalýðsfélags Akraness að t.d eitt stærsta útgerðarfyrirtæki á landinu, HB Grandi, hefur ekki séð sér fært að fylgja þessu glæsilega fordæmi þessara fyrirtækja þegar um launauppbót er að ræða. En í fyrra hafði formaður Verkalýðsfélags Akraness samband við forsvarsmenn HB Granda þar sem óskað var eftir að þeir myndu fylgja fordæmi annarra útgerðarfyrirtækja og greiða álíka uppbót, en því miður var því erindi hafnað.   

 

Þessar launauppbætur sýna hins vegar að það var rétt mat hjá Verkalýðsfélagi Akraness þegar félagið sagði við gerð síðustu kjarasamninga að fiskvinnslufyrirtækin hefðu svo sannarlega borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna umfram svokallaða samræmda launastefnu sem ASÍ og Samtök Atvinnulífsins. Það er því í raun og veru sorglegt að stór og sterk sjávarútvegsfyrirtæki geti skýlt sér á bak við gildandi kjarasamning sem gerður var í anda svokallaðrar samræmdrar launastefnu, samræmdrar launastefnu þar sem lítið sem ekkert tillit mátti taka til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.

Verkalýðsfélag Akraness telur fulla þörf á að þakka þegar fyrirtæki gera vel við sína starfsmenn umfram gildandi kjarasamninga, enda vílar félagið ekki heldur fyrir sér að gagnrýna fyrirtæki harðlega þegar þau standa sig ekki sem skyldi gagnvart sínum starfsmönnum.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á öll fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði og getu til að fylgja þessu fordæmi þessara fyrirtækja og greiða sínum starfsmönnum launauppbót því ekkert fyrirtæki er án góðra starfsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image