• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Dec

Verðtryggingarvítisvélin

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað frá 1. janúar 2009 til 1. september 2011 um 18,3 milljarða bara vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar.  Þessu til viðbótar munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 3-4 milljarða vegna fyrirhugaðra skattahækkana, samtals eru þetta hækkanir á verðtryggðum skuldum heimilanna frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2012 uppá 22,3 milljarða og þetta er bara vegna hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Íslensk heimili skulda að meðaltali 18 milljónir í verðtryggðum skuldum þannig að jólagjöfin í ár frá ríkisstjórninni til heimilanna er hækkun að meðaltali uppá tæpar 400.000 kr á skuldum heimilanna.  Mér reiknast til að verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna hefi hækkað um hvorki meira né minna en yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, á þessu sést hverslags vítis- og drápsvél verðtryggingin er íslenskum heimilum.

Vítisvél

Verðtryggingarvítisvélin hefur farið á undanförnum árum eins og skýstrókur um skuldsett heimili og sogað allan eignarhluta í burtu frá heimilunum og fært hann yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.

Á sama tíma og íslensk heimili þurfa að horfa uppá 400.000 kr. hækkun á  höfuðstól verðtryggðra skulda að meðaltali vegna hækkunar neysluvísitölunnar vegna skattahækkana, þá hækkar lífeyriseign Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J Sigfússonar fjármálaráðherra um 300.000 kr.  vegna þess að neysluvísitalan mun hækka um 0,2% vegna fyrirhugaðra skattahækkana.

Réttlæti og jöfnuður

Eins og fram hefur komið þá er talið að lífeyriseign forsætisráðherra og fjármálaráðherra sé yfir 150 milljónir hvort fyrir sig.  En þessi gríðarlega lífeyriseign er með ríkisábyrgð og verðtryggð sem gerir það að verkum að skattahækkanir sem fara útí neysluvísitöluna gera ekkert annað en að stórhækka lífeyri æðstu ráðamanna.  Er þetta réttlætið og jöfnuðurinn sem þessi ríkisstjórn vill kenna sig við, að alþýða þessa lands þurfi að horfa upp á 400.000 króna hækkun á höfuðstól sinna lána á meðan lífeyrisréttindi oddvita stjórnarflokkanna hækka um 300.000 krónur vegna áðurnefndrar hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Svo talar forysta ASÍ fyrir því að mikilvægt sé að viðhalda verðtryggingunni til að verja eignir lífeyrissjóðanna en það virðist ekki skipta þessa menn neinu máli þótt verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, já yfir 300 milljarðar hafa verið færðir frá skuldsettum heimilum yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.  Ég veit ekki betur en að öllu jöfnu ætti húseignin okkar að vera líka okkar lífeyrir.

Verðtryggingarvítisvélinni verður að eyða með öllum tiltækum ráðum því hvaða réttlæti og jöfnuður er það að t.d ofur lífeyrisréttindi æðstu ráðamanna bólgni út á meðan skuldsett heimili horfa uppá eignarhlut sinn sogast í burtu vegna verðtryggingarvítisvélarinnar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image