• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Dec

Samkomulag gert við Norðurál

Rétt fyrir jól náði Verkalýðsfélag Akraness ásamt þeim félögum sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál samkomulagi vegna ágreinings sem laut að því að starfsmenn sem ráðnir voru til afleysinga í orlofi hafa ekki verið að fá greiddan fullan bónus fyrr en eftir 4 mánuði í starfi.

Samningsaðilar fóru yfir þessa framkvæmd og benti Verkalýðsfélag Akraness á að ekki hafði verið rætt sérstaklega um þessa takmörkun á bónusgreiðslum til afleysingamanna þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á bónuskerfinu í kjarasamningnum sem tók gildi 1. janúar 2010. Ekkert var getið um slíka takmörkun á bónusgreiðslum til afleysingamanna í þeim kjarasamningi. Voru samningsaðilar sammála um að vafi léki á hvort heimilt hafi verið að greiða ekki umræddum starfsmönnum fulla hlutdeild í árangri en Norðurál byggði sína framkvæmd á samkomulagi sem undirritað var af fyrrverandi trúnaðarmanni frá árinu 2000.

Samningsaðilar gengu frá samkomulagi um að frá og með 1. janúar 2012 breytist framkvæmd greinarinnar 3.14 í kjarasamningi þannig að allir starfsmenn eigi rétt á fullri hlutdeild í árangri frá upphafi ráðningar. Jafnframt er samkomulag um að starfsmenn sem ekki fengu greidda fulla hlutdeild í árangri frá 1. janúar 2010 og út árið 2011 fái greidda eingreiðslu sem svari til mismunar á greiddri hlutdeild annars vegar og fullri hlutdeild í árangri hins vegar sem greidd var á starfstíma árin 2010 og 2011. Áætlað er að kostnaður Norðuráls vegna þessarar leiðréttingar sé um 8 milljónir fyrir hvort ár fyrir sig eða samtals um 16 milljónir króna. Uppgjör fer fram samhliða launaútborgun 31. janúar 2012.

Formaður er afar ánægður með þetta samkomulag og sérstaklega í ljósi þess að ekki hafi þurft að koma til þess að málið færi fyrir félagsdóm. Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir alla þá starfsmenn sem eru ráðnir til afleysinga því nú munu þeir framvegis njóta fulls bónus en ekki með takmörkunum eins og framkvæmdin var áður.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image