• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Ótrúlegt kjarasamningsár á enda

Í gær var haldinn hinn árlegi jólatrúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness. Á fundinum fór formaður yfir það starfsár sem nú er senn á enda og eðli málsins samkvæmt bar þar hæst það ótrúlega kjarasamningsár sem nú er að líða.

Formaður rakti alla kjarasamninga sem félagið hafði gert á árinu og þá ótrúlegu baráttu sem fólst í því að brjóta á bak aftur þá svokölluðu samræmdu launastefnu sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins höfðu mótað. Formaður rakti þá baráttu sem félagið stóð í en í nafni samræmdrar launastefnu átti með öllum tiltækum ráðum að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtæki í útflutningi myndu greiða hærri launahækkanir heldur en um yrði samið eftir umræddri láglaunastefnu. Einn af fyrstu kjarasamningunum sem undirritaðir voru í þessari kjarasamningslotu á hinum almenna vinnumarkaði var kjarasamningur Elkem Ísland sem Verkalýðsfélag Akraness undirritaði 19. apríl. Formanni er það fullkunnugt að þessi samningur hafi valdið gríðarlegum titringi á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins enda kom það skýrt fram í fjölmiðlum á sínum tíma. Enda tókst Verkalýðsfélagi Akraness í þessum samningi að brjóta láglaunastefnuna hvað varðar útflutningsfyrirtæki á bak aftur. Sá samningur var langtum betri en sá samningur sem gengið var svo frá á hinum almenna vinnumarkaði af forystu ASÍ þann 5. maí. Samningurinn við Elkem fól í sér eingreiðslu og afturvirkni sem nam um 500 þúsund krónum til hvers starfsmanns fyrirtækisins en í heildina var kjarasamningurinn að gefa um 26% á samningstímanum.

Formaður sagði einnig frá því á fundinum að félaginu hafi tekist að semja um umtalsvert hærri launahækkanir til handa starfsmönnum Klafa, sem er þjónustufyrirtæki á Grundartanga, en sá samningur var algjörlega í anda þess sem gerðist hjá Elkem Ísland. Sá samningur náðist í gegn eftir að félagið hafði boðað til verkfalls sem hefði haft víðtæk áhrif á Grundartangasvæðinu. Einnig tókst félaginu að ná góðum samningi fyrir starfsmenn Norðuráls, samningi sem var ekki í neinu samræmi við þá láglaunastefnu sem fólgin var í samræmdu launastefnunni.

Það voru gríðarleg átök sem fólust í því að brjóta þessa samræmdu launastefnu á bak aftur enda var forysta ASÍ búin að vinna að því að allir launþegar skyldu fá sambærilegar launahækkanir algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Rök Verkalýðsfélags Akraness voru ætíð skýr, að sýna þyrfti fyrirtækjum sem væru í vanda skilning en um leið voru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki sem væru starfandi í útflutningi fengju einhvern afslátt í þeim kjarasamningum sem gerðir voru.

Formaður tók einnig fram að hann hefði viljað sjá mun meiri hækkanir til handa fiskvinnslufólki og starfsmanna síldarbræðslna, en því miður tókst það ekki, enda brást samstaðan eins og frægt var þegar átti að að koma að verkfalli síldarbræðslumanna þann 15. febrúar. Fyrir vikið fékk fiskvinnslufólk mun minni hækkanir heldur en útgerðin réði við enda hefur það svo sannarlega komið í ljós því fjöldi fyrirtækja hefur greitt sínum starfsmönnum umtalsverðar bónusgreiðslur langt umfram gildandi kjarasamninga. Því miður eru sum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem ekki hafa greitt slíkar bónusgreiðslur og hafa skýlt sér á bak við kjarasamninginn sem byggður var á þessari láglaunastefnu. En þessar umframgreiðslur sumra útgerðarfyrirtækja sýna að það var miklu meiri innistæða til hjá þeim fyrirtækjum heldur en kjarasamningurinn til fiskvinnslufólks gaf því fólki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image