• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Oct

Launaliður samnings Norðuráls samþykktur með tæplega 70% greiddra atkvæða

Samningur vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls var samþykkturSamningur vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls var samþykkturRétt í þessu var að ljúka talningu úr kosningu vegna launaliðar Norðuráls sem undirritaður var 23. september síðastliðinn. Samningurinn var samþykktur með tæplega 70% greiddra atkvæða.

Á kjörskrá voru 580 manns með sumarafleysingafólki en 422 greiddu atkvæði sem er 72,7% þátttaka.

Já sögðu 287 eða 68%

Nei sögðu 129 eða 30,5%

Auðir og ógildir seðlar voru 6 eða 1,5%.

Það er alveg ljóst í huga formanns félagsins að hér er um nokkuð góðan samning að ræða þó vissulega sé það alltaf þannig að menn vilji meira. Þessi samningur er að skila starfsmönnum sem hafa náð þriggja ára starfsaldri 14,1% launahækkun á þessu ári og er mjög algengt að starfsmenn sem hafi náð 3 ára starfsaldri hafi hækkað um rúmar 60 þúsund á mánuði frá og með 1. desember næstkomandi. Iðnaðarmenn sem hafa starfað í 5 ár eða lengur eru að hækka um allt að 81 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði.

Samningurinn gefur á samningstímanum 21,4% og sem dæmi þá er 5 ára starfsmaður á vöktum í kerskála kominn með heildarlaun upp á tæpar 502 þúsund krónur og iðnaðarmaður á vöktum er kominn í 650 þúsund krónur í heildarlaun. Það voru fleiri jákvæð atriði sem náðust út úr þessum samningi eins og til dæmis stóriðjuskólinn sem hefur verið eitt af baráttumálum félagsins um alllanga hríð. Stefnt er að því að starfsemi skólans hefjist í janúar á næsta ári ef allt gengur upp. Það munu 32 starfsmenn komast í skólann í upphafi og munu þeir þá útskrifast um vorið 2013 en skólinn mun veita starfsmönnum 5% launahækkun. Einnig verður boðið upp á framhaldsnám í stóriðjuskólanum og að afloknu framhaldsnámi munu starfsmenn fá 4% launahækkun og samtals mun stóriðjuskólinn því gefa um 9% launahækkun.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gildir samningurinn frá 1. janúar 2011 og munu starfsmenn fá laun leiðrétt aftur til þess tíma og er stefnt að því að sú leiðrétting verði greidd í sérstakri útborgun í lok þessa mánaðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image