• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Oct

Verja þarf heilbrigðiskerfið með kjafti og klóm

Heilbrigðisstofnun Vesturlands á AkranesiHeilbrigðisstofnun Vesturlands á AkranesiNú hefur fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012 litið dagsins ljós og ljóst að verulegar blikur eru nú á lofti hvað varðar heilbrigðisþjónustu vítt og breitt um landið. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu þarf Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) að skera niður á næsta ári sem nemur 95 milljónum króna, en rétt er að geta þess að rekstrarhalli á stofnuninni fyrir þetta ár stefnir í að verða á bilinu 50-100 milljónir sem þýðir að skera þarf niður um allt að 200 milljónir á næsta ári hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Frá árinu 2009 nemur heildarniðurskurður hjá stofnuninni uppundir 500 milljónum króna, en þessum niðurskurði hefur meðal annars verið mætt með skerðingu á starfshlutfalli og lækkun launa starfsmanna. En launakostnaður HVE hefur lækkað frá 5% upp í allt að 25%.

Það er morgunljóst að búið er að hagræða öllu sem hægt er að hagræða innan stofnunarinnar og því ljóst að ef áform um frekari niðurskurð verða að veruleika mun það klárlega þýða umtalsverða skerðingu á þjónustu sem m.a. mun birtast í formi uppsagna starfsmanna. Það er spurning hvort ekki megi fara að spyrja sig að því hvort þessi gríðarlegi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu fari ekki að nálgast þau mörk að öryggi sjúklinga sé ógnað.

Það er dapurlegt að verða vitni að því hvernig hoggið hefur verið í grunnstoðir okkar velferðarkerfis, en flestum ber saman um að heilbrigðiskerfið sé einn af hornsteinum okkar samfélags og þá þjónustu verðum við Íslendingar að verja með kjafti og klóm og spyrja okkur hvernig við viljum forgangsraða þegar kemur að niðurskurði hjá hinu opinbera.

Að mati formanns er sú forgangsröðun sem nú á sér stað við niðurskurð í fjárlögum röng. Það hlýtur að vera hægt að skera meira niður t.d. hjá utanríkisþjónustunni en kostnaður þess ráðuneytis vegna sendiráða erlendis nemur 2,6 milljörðum. Einnig má spyrja sig að því í ljósi þess gríðarlega niðurskurðar sem orðið hefur víða á okkar grunnstoðum hvort aðildarviðræður við ESB séu réttlætanlegar á þessum tímapunkti í ljósi þess gríðarlega kostnaðar sem Ríkissjóður verður fyrir vegna aðildarumsóknarinnar. Einnig hefur verið til umræðu sá mikli kostnaður er snýr að Sinfoníuhljómsveit Íslands en samkvæmt fjárlögum nemur sá kostnaður um 800 milljónum á næsta ári, Íslenska óperan er með rúmar 100 milljónir og Þjóðleikhúsið rúmar 600 milljónir.

Það eru svona atriði sem Íslendingar þurfa að vega og meta þegar kemur að niðurskurði hjá hinu opinbera. Því það verður ekki bæði haldið og sleppt þegar fjárhagsstaða Ríkissjóðs er jafn slæm og raunin er. En það er alveg ljóst að með þessum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu þá mun það þýða verulega skerðingu á þjónustu við landsmenn en heilsan hlýtur að vera það dýrmætasta sem hvert mannsbarn býr yfir.

Formaður spyr sig einnig að því hví í ósköpunum séreignarlífeyrisgreiðslur eru ekki skattlagðar strax eins og formaður hefur reyndar áður bent á að gæti verið ágætis lausn til að mæta hinum mikla rekstrarvanda Ríkissjóðs, en með slíkri ráðstöfun gæti Ríkissjóður náð sér í upp undir 100 milljarða án þess að almenningur yrði svo mikið sem var við það. Með þessum fjármunum væri hægt að verja þessar grunnstoðir okkar sem eru m.a. heilbrigðiskerfið, löggæsla og menntakerfið.

Nú kennir ríkisstjórnin sig við norræna velferð, en það getur vart talist til velferðar að höggva jafnmikið í eina mikilvægustu þjónustu sem hver þjóð þarf að bjóða upp á sem er heilbrigðisþjónusta. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur forstjóri Landsspítalans látið hafa það eftir sér að ef þessi niðurskurður verði að veruleika þá stefni í að loka þurfi einhverjum deildum á spítalanum og ljóst að fleiri stofnanir munu þurfa að gera slíkt hið sama ef fjárlagafrumvarpið fær að standa óbreytt.

Er það þetta sem við Íslendingar viljum? Svar formanns á þeirri spurningu er: nei.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image