• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Oct

Þing SGS hlýtur að krefjast afnáms verðtryggingar

Þing Starfsgreinasambands Íslands mun hefjast á morgun á Hótel Loftleiðum og stendur þingið yfir í tvo daga. Það er ljóst að fjölmörg mál munu verða í brennidepli á þessu þingi, meðal annars atvinnu- og kjaramál og síðast en ekki síst málefni skuldsettra heimila.

Það er alveg ljóst að málefni um skuldavanda heimilanna mun ugglaust verða talsvert rædd á þinginu sem og það miskunnarlausa óréttlæti sem heimilin hafa mátt þola á liðnum árum. Heimilin hafa þurft að taka á sig stóran hluta af þeim forsendubresti sem varð vegna efnahagshrunsins á sama tíma og slegin hefur verið skjaldborg í kringum erlenda kröfuhafa og vogunarsjóði. Krafan hlýtur að vera sú að bankastofnanir skili þeim afslætti sem þær fengu úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju til sinna viðskiptavina með afgerandi hætti. En það er alveg ljóst að samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum þá er nægt svigrúm hjá bönkunum til leiðréttinga á skuldum heimilanna.

Einnig hlýtur það að verða skýr krafa á þinginu að ríkisstjórnin afnemi verðtrygginguna án tafar enda er hér um samfélagslegt mein að ræða sem hefur leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og það er undarlegt að ríkisstjórn sem kennir sig meðal annars við réttlæti skuli láta það óréttlæti viðgangast að skuldsett heimili taki á sig alla ábyrgð er lítur að verðtryggingunni á sama tíma og fjármálastofnanir eru tryggðar upp í rjáfur. Við þetta óréttlæti getur almenningur í þessu landi ekki sætt sig stundinni lengur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image