• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Oct

Gríðarleg vonbrigði - tillaga um afnám verðtryggingar felld á þingi SGS

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness fram tvær ályktanir á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var dagana 13. og 14. október og lauk rétt í þessu.

Það er óhætt að segja að þessar ályktanir hafi vakið verðskuldaða athygli á þinginu enda sköpuðust miklar umræður um þær báðar. Það er skemmst frá því að segja að einungis önnur ályktunin náði fram að ganga en það var ályktun um leiðréttingu á þeim gríðarlega forsendubresti sem varð í kjölfar efnahagshrunsins. Það ber að þakka fyrir þann stuðning sem þessi ályktun fékk á þinginu, en hún fór í gegn með örlitlum orðalagsbreytingum.

Hins vegar veldur það undrun og hryggð formanns VLFA að ályktun um afnám verðtryggingar skyldi hafa verið felld bæði í nefndarstarfi sem og í allsherjarkosningu á þinginu. Það er með ólíkindum í ljósi þess að verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum. Hvernig má það vera að verkalýðshreyfingin skuli ekki vera í sama takti og hinn almenni félagsmaður hvað þetta brýna hagsmunamál varðar? Enda var niðurstaða könnunar, sem Hagsmunasamtök heimilanna létu Capacent Gallup gera fyrir sig um vilja til afnáms verðtryggingar, sú að 80% þátttakenda vildu afnema verðtrygginguna af 1600 manns sem spurðir voru.

Formaður spyr sig á hvaða vegferð er íslensk verkalýðshreyfing þegar hún gengur slag í slag þvert gegn vilja hins almenna félagsmanns, eins og áðurnefnd könnun sannar, og þarna er kannski komin skýringin á þeirri gríðarlegu gjá sem er á milli forystu verkalýðshreyfingarinnar og hins almenna félagsmanns um þessar mundir.

Formaður færði ítarleg rök fyrir þessari ályktun sem felld var á þinginu og kom m.a. fram í máli hans að almenningur hefur verið að mótmæla á Austurvelli m.a. verðtryggingunni og í þessu samhengi er rétt að minna á að þegar stóru mótmælin voru þegar upp undir 10.000 manns mættu 1. október 2010 voru verðtryggð íbúðarlán heimilanna 1.236 milljarðar og hafa hækkað vegna 5,7% verðbólgu á síðustu 12 mánuðum um 70 milljarða. En formanni reiknast til að frá 1. janúar 2008 hafi verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað hvorki um meira né minna en 350 milljarða króna. Því er það þyngra en tárum taki að ályktun um að eyða þessum skaðvaldi sem verðtryggingin er, hafi verið felld á þessu þingi með 54,5% atkvæða. Þarna var kjörið tækifæri til að standa með alþýðu þessa lands gegn því miskunnarlausa óréttlæti sem birtist í formi verðtryggingar. Óréttlæti sem birtist í því að fjármagnseigendur og fjármálastofnanir bólgna út á kostnað skuldsettra heimila.

Formaður sagði á þinginu að stéttarfélög innan ASÍ hafi fengið gríðarlegar upphæðir í formi vaxta og verðbóta frá hruni og mætti alveg segja að þetta séu hálfgerðir blóðpeningar enda koma þeir frá skuldsettum heimilum. Hrunið virkaði eins og lottó-vinningur fyrir fjármagnseigendur sem voru með sína fjármuni verðtryggða.

Formaður kom einnig inn á það þegar Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd í október 2008 til að meta áhrif þess að taka neysluvísitöluna tímabundið úr sambandi. Formaður þeirrar nefndar var Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og það var með ólíkindum að hann skuli hafa lagst alfarið gegn því að taka neysluvísitöluna úr sambandi tímabundið og dreifa með því byrðum hrunsins jafnt milli fjármagnseigenda og skuldsettra heimila . Rök forseta ASÍ voru þau að þetta myndi kosta fjármagnseigendur 180 milljarða, en skítt með skuldsett heimili. Ég hef áður skorað á forseta ASÍ að segja af sér vegna þessarar afstöðu sem hann tók gegn skuldsettum heimilum og ég geri það aftur nú.

Eins og áður sagði vakti þessi niðurstaða undrun formanns, enda er hún ekki í neinum takti við það sem alþýða þessa lands hefur verið að berjast fyrir á síðustu misserum. En þetta er engin nýlunda fyrir formann Verkalýðsfélags Akraness að lenda í slíkum átökum þegar um forystu verkalýðshreyfingarinnar er að ræða en eins og frægt var lagði Verkalýðsfélag Akraness fram tillögu um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum þar sem sjóðsfélagarnir myndu kjósa alla sína stjórnarmenn og hætt yrði með helmingaskipti verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda eins og nú tíðkast. Sú tillaga var felld með 80% atkvæða á ársfundinum, en félagið lét Capacent Gallup gera könnun fyrir sig um sama efni og það er skemmst frá því að segja að þar voru um 80% sem vildu auka við lýðræði í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá gríðarlegu gjá sem er á milli hins almenna félagsmanns og æðstu stjórnenda verkalýðshreyfingarinnar svo ekki verður um villst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image