• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Oct

Mikilvægi stóriðjunnar

Í gær tilkynnti Alcoa að þeir hefðu hætt við áform um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Formaður VLFA skilur vel þá gremju og reiði sem nú ríkir hjá Húsvíkingum en nú hafa þeir beðið eftir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði um alllanga hríð og bundu miklar vonir við áform Alcoa um stórt og öflugt álver á þeirra atvinnusvæði.

Við Akurnesingar þekkjum mætavel hversu gríðarlega mikilvæg stóriðja er fyrir hvert atvinnusvæði. En formaður myndi ekki vilja hugsa þá hugsun til enda ef stóriðjunnar á Grundartanga, þ.e.a.s. Elkem Ísland og Norðurál, nyti ekki við á okkar atvinnusvæði. En hjá Norðuráli starfa um 530 starfsmenn og yfir 200 manns starfa hjá Elkem Ísland. Með afleiddum störfum starfa um 3.000 manns tengt stóriðjunni á Grundartanga. Atvinnuástandið á Akranesi væri með öðrum orðum skelfilegt ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við og búsetuskilyrði á svæðinu væru þar af leiðandi ekki vænleg.

Það er gríðarlega mikilvægt að stóriðjan bjóði upp á bestu mögulegu launakjör og það er eitt af því sem Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að berjast fyrir um alllanga hríð. Í síðustu samningalotu sem nú er nýlokið var stigið skref í jákvæða átt hvað varðar launakjör Norðuráls á Grundartanga, en baráttu fyrir bættum kjörum félagsmanna mun að sjálfsögðu aldrei ljúka. Rétt er að geta þess að í dag er verkamaður á vöktum með 5 ára starfsaldur hjá Norðuráli með yfir 500.000 kr. í heildarlaun á mánuði fyrir 182 klst vinnu. Iðnaðarmaður er með um 650.000 kr. á vöktum fyrir sama vinnustundafjölda.

Launakjör í Norðurál hækka á þessu ári sem nemur 14,1% sem klárlega skilar sér til samfélagsins með einum eða öðrum hætti og þessar launahækkanir sýna sterka stöðu þessara fyrirtækja og mikilvægi þeirra hér á landi. Eins og áður sagði þá starfa t.a.m. 530 manns hjá Norðuráli á Grundartanga og það er ljóst að sveitarfélögin njóta góðs af þessari starfsemi bæði í formi fasteignagjalda, útsvars og annarra greiðslna til ríkis og sveitarfélaga.

Formaður hefur oft og tíðum undrað sig á þeim fordómum sem ríkja í garð stóriðju hér á landi í ljósi þeirra staðreynda hversu mikilvæg hún er íslensku samfélagi og síðast en ekki síst hverju því atvinnusvæði sem hún tilheyrir. Það þýðir ekki lengur fyrir þá sem gagnrýna stóriðju hér á landi að segja að það verði bara eitthvað annað að koma í staðinn. Þá verða þessir sömu aðilar að benda á hvað annað eigi að koma, því formaður fullyrðir það að ef stóriðjunnar nyti ekki við á Akranesi þá væru búsetuskilyrði hér vægast sagt skelfileg.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image