• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fundur með starfsmönnum Norðuráls fimmtudaginn 15. september Fundur fyrir starfsmenn Norðuráls verður haldinn í Bíóhöllinni
08
Sep

Fundur með starfsmönnum Norðuráls fimmtudaginn 15. september

Nú er liðinn 251 dagur frá því launaliður kjarasamnings Norðuráls rann út og hafa formlegir samningafundir ekki borið árangur til þessa. Krafa Verkalýðsfélags Akraness í þessum viðræðum er jöfnuður við verksmiðjur í sambærilegum iðnaði en því miður hafa launakjör hjá Norðuráli verið töluvert lakari en gerist í öðrum sambærilegum verksmiðjum.

Formaður hefur átt óformlega fundi með forsvarsmönnum Norðuráls að undanförnu þar sem leitað er leiða til að finna lausn á þeim ágreiningi sem er á milli samningsaðila. Hefur það ekki borið árangur til þessa en þessum óformlegu viðræðum verður haldið áfram. Nú liggur fyrir að kjarasamningur Alcan í Straumsvík sem undirritaður var fyrir skemmstu var kolfelldur í atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna en ein af kröfum starfsmanna Norðuráls er einmitt jöfnuður meðal annars við Alcan í Straumsvík.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að halda fund með starfsmönnum Norðuráls sem haldinn verður í Bíóhöllinni fimmtudaginn 15. september næstkomandi en þar mun formaður fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni og kalla eftir viðbrögðum frá starfsmönnum um hvað gera skuli. Félagið leggur mikla áherslu á það að upplýsa starfsmenn eins vel og kostur er um þá möguleika sem í stöðunni eru en eins og áður sagði er það morgunljóst að félagið mun ekki hvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að launakjör í Norðuráli verði með sambærilegum hætti og í sambærilegum verksmiðjum hér á landi. Það liggur fyrir að baráttumál eins og upptaka á stóriðjuskóla, sem mun skila starfsmönnum ávinningi að loknu námi, virðist vera að nást í þessum viðræðum, eina sem útaf stendur er hversu mikill sá ávinnungur verður og hvenær skólinn á að hefjast. En formaður er vongóður um að niðurstaða muni nást í þessu máli sem ætti að geta verið ásættanleg fyrir starfsmenn.

Eins og áður sagði er 251 dagur liðinn frá því að launaliðurinn rann út og því er mjög mikilvægt að niðurstaða fari að komast í þessar viðræður því það er ekki hægt að bjóða starfsmönnum upp á að vera án kjarasamningsbundinna launahækkana í eina 9 mánuði eins og raunin er nú orðin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image