• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Ferð "eldri deildar" Verkalýðsfélags Akraness vel heppnuð Bjarnfríður Leósdóttir og Vilhjálmur Birgisson takast í hendur við Höfð
12
Sep

Ferð "eldri deildar" Verkalýðsfélags Akraness vel heppnuð

Síðastliðinn föstudag héldu eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness ásamt mökum í sína árlegu dagsferð á vegum félagsins. Þátttakendur voru um 100 talsins auk fulltrúa frá félaginu. Þessi ferð er árlegur liður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var ferðinni heitið til Reykjavíkur undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen.

Ekið var í tveimur rútum sem leið lá norður fyrir Akrafjall að Grundartanga þar sem ekki var áð, en aðeins keyrt um þetta svæði þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu ár með tilheyrandi nýbyggingum og nýjum fyrirtækjum sem hafa hafið þar starfsemi sína.

Frá Grundartanga var ekið um Hvalfjarðargöng að Kjalarnesi. Hringur var ekinn um Grundarhverfi áður en haldið var áfram suður Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ og að Korpúlfsstöðum, framhjá Egilshöll og áfram upp í Grafarholt þaðan sem frábært útsýni er í allar áttir og ekki síst að Esju og upp á Akranes.

Fyrsti áningarstaður ferðarinnar var í Morgunblaðshúsinu í Hádegismóum þar sem vel var tekið á móti okkur. Karl Blöndal aðstoðarritstjóri ræddi við hópinn og svaraði fyrirspurnum og síðan tók Svanhvít starfsmannastjóri við hópnum og leiddi hann í skoðunarferð um prentsmiðjuna.

Frá Hádegismóum var ekið rakleiðis að Árbæjarsafni þar sem leiðsögumennirnir Hjördís og Karl skiptu hópnum á milli sín og leiddu um safnið. Góður rómur var gerður að kynningu þeirra og hefðu margir vilja dvelja lengur á safninu enda könnuðust sumir vel við að hafa búið í húsum keimlíkum þeim sem tilheyra sýningunni á Árbæjarsafni.

Næsti viðkomustaður var Höfði þar sem ferðafólk teygði úr sér í góða veðrinu og skoðaði þetta virðulega og sögulega hús, en búið er að setja upplýsingaskilti við húsið sem fróðlegt er að skoða.

Þegar hér var komið sögu var ferðfólk farið að svengja enda sól að nálgast hádegisstað. Hádegisverður var snæddur á veitingastaðnum Munnhörpunni sem staðsettur í hinu nýja tónlistarhúsi Hörpu. Eftir matinn gat fólk gengið um Hörpu og skoðað húsið.

Frá Hörpu var ekið að Þjóðarbókhlöðu þar sem hópurinn fékk hlýjar móttökur. Í kynningu sem hópurinn fékk var sérstaklega tekið fram hversu ánægjulegt það væri að fá að kynna þjónustu bókhlöðunnar fyrir þessum aldurshópi þar sem yfirleitt væru notendur safnsins í yngri kantinum og aukinn fjölbreytileiki í þeim efnum væri af hinu góða.

Eftir að hafa blaðað aðeins í tímaritum og bókum á Þjóðarbókhlöðu lá leiðin á Austurvöll þar sem Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, tók á móti hópnum og fylgdi um Alþingishúsið ásamt starfsmönnum Alþingis. Hópurinn fékk góða og fróðlega leiðsögn um húsið og gott spjall við ráðherrann. Vegna stærðar hópsins þurfti að tvískipta honum og fór sá hópur sem var utanþings í Ráðhús Reykjavíkur þar sem sumir skoðuðu upphleypta Íslandskortið á meðan aðrir gengu að Tjörninni og gáfu öndunum brauð.

Á heimleiðinni var komið við í Perlunni þar sem félagið bauð upp á síðdegishressingu.

Þykir ferðin í ár hafa heppnast einstaklega vel og kann félagið öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hennar bestu þakkir fyrir. Sérstakar þakkir fær Björn Finsen leiðsögumaður sem kann, að því er virðist, áhugaverða sögu um hvern stein og hvert götuhorn sem á vegi hans verður, samferðafólki hans til fræðslu og yndisauka.

Hægt er að skoða myndir úr ferðinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image