• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Góður samstöðufundur í Bíóhöllinni í gær Frá fundi með starfsmönnum Norðuráls í lok júní
16
Sep

Góður samstöðufundur í Bíóhöllinni í gær

Verkalýðsfélag Akraness stóð fyrir fundi í Bíóhöllinni í gær með starfsmönnum Norðuráls vegna kjaradeilu sem félagið á í við Norðurál en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann launaliður kjarasamningsins út 1. janúar síðastliðinn. Ágætis mæting var á fundinn en um 170 manns mættu en þetta er þriðji kynningar- og samstöðufundurinn sem félagið heldur á liðnum mánuðum þar sem farið er yfir stöðu mála.

Í gær fór formaður ítarlega yfir tilboð sem forsvarsmenn fyrirtækisins lögðu fram 22. ágúst síðastliðinn og kom skýrt fram hjá fundarmönnum að það tilboð sé óásættanlegt með öllu. Krafa starfsmanna er skýr en hún er sú að laun starfsmanna Norðuráls séu með sambærilegum hætti og gerist í öðrum iðnfyrirtækjum í sambærilegum iðnaði. Formaður fór yfir stöðuna og kallaði eftir hugmyndum frá starfsmönnum um hvaða leið best væri að fara og það var afar ánægjulegt að finna þá miklu samstöðu og einhug sem ríkir hjá starfsmönnum í þessari kjaradeilu en það er morgunljóst að það þarf að fara að ganga frá launalið kjarasamningsins sem allra fyrst.

Fundurinn samþykkti viss markmið sem formanni var falið að vinna eftir og það er ljóst að það er umtalsverð vinna framundan við að ná þessum markmiðum en með samstöðuna að vopni er æði margt hægt að gera. Formaður hefur átt óformlega fundi með Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls, þar sem leitað hefur verið leiða til að finna lausn á þessari deilu og vonandi munu samningsaðilar ná saman en það mun ekki takast nema að jöfnuður við fyrirtæki í sambærilegum iðnaði nái fram að ganga. Formaður hefur greint forstjóra Norðuráls frá niðurstöðum frá þessum fundi í gærkvöldi og er hann nú með málið til skoðunar hjá sér og er það einlæg von formanns félagsins að hægt verði að ná niðurstöðu í þetta mál því það er óþolandi með öllu að starfsmenn séu búnir að vera án launahækkana í rúma 9 mánuði.

En það liggur einnig fyrir að það eru fleiri álfyrirtæki sem eru í harðri kjarabaráttu um þessar mundir en eins og flestir vita þá felldu starfsmenn Alcan í Straumsvík kjarasamning sinn með 70% atkvæða fyrir skemmstu og að sjálfsögðu fylgjast starfsmenn Norðuráls og Verkalýðsfélag Akraness vel með hvernig því máli mun lykta. En formaður ítrekar þá ósk sína að hægt verði að ganga frá launalið samningsins sem fyrst því það gengur ekki upp fyrir fólk að fá skefjalausar verðlagshækkanir á öllum sviðum á sig á sama tíma og launahækkanir láta á sér standa.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image