• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Sep

Hver þarf að eiga óvini þegar hann á svona vini?

Það  er þyngra en tárum taki að verða vitni að því hvernig svokallaðar vinaþjóðir koma fram við smáþjóð eins og okkur Íslendinga.  Í kjölfar bankahrunsins settu Bretar á okkur hryðjuverkalög sem hafa að öllum líkindum kostað þjóðina tugi milljarða króna og því til viðbótar liggur fyrir að orðspor þjóðarinnar hefur beðið verulegan skaða af á alþjóðavettvangi vegna þessarar ákvörðunar breskra stjórnvalda.

Áfram halda þessar svokölluðu vinaþjóðir að höggva í sama knérunn en Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir nokkrum dögum að gripið yrði til diplómatískra aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiða Íslendinga.

Formaður félagsins spyr, hvað eru bandarísk stjórnvöld að skipta sér af hvalveiðum Íslendinga í ljósi þeirra staðreynda að hvalveiðar Íslendinga eru löglegar og alþjóðleg viðskipti með hvalaafurðir eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Að fá slíka hótun frá stórveldi eins og Bandaríkjamönnum er grafalvarlegt í ljósi þeirra staðreynda að það liggur fyrir að veiðar Íslendinga á hrefnu og langreyðum eru byggðar á löglegum og traustum vísindalegum grunni og það er skylda íslenskra stjórnvalda að mótmæla svona ofbeldi af fullri hörku.

Það er stórmál ef stórþjóðir eins og Bandaríkin ætla að skipta sér af því hvernig við nýtum  okkar sjávarauðlindir sem eru nýttar samkvæmt útgefnum kvótum að fenginni ráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun.

Það vita allir að afkoma okkar Íslendinga byggist að stórum hluta á sjávarfangi en um 50% gjaldeyristekna þjóðarinnar kemur frá sjávarútvegnum. Því eru svona hótanir ekkert annað en aðför að velferð okkar Íslendinga. Formaður VLFA spyr hvar mun þessi vitleysa  enda og getum við átt von á því að gerð verði krafa um að veiðum verði hætt á öðrum fiskistofnum eins og t.d. þorski.

Það er morgunljóst að hvalveiðar skipta þjóðarbúið máli svo ekki sé talað um samfélagið hér á Akranesi en um 200 manns störfuðu við veiðar og vinnslu á vertíðinni 2010 og sem dæmi voru meðallaun yfir 700.000 kr. á mánuði. Þó er rétt að geta þess að mikið vinnuframlag lá að baki slíkum launum.

Því miður þurfti Kristján Loftsson hjá Hval hf. að hætta við hvalveiðar á þessari vertíð vegna náttúruhamfaranna sem riðu yfir Japan, en það er einlæg von mín úr rætist á næsta ári þannig að hægt verði að hefja veiðar á langreyðum strax í júní á næsta ári.

Formaðurinn skorar á íslensk stjórnvöld að mótmæla harðlega þessum aðgerðum Bandaríkjamanna sem eru eins og áður sagði ógn við velferð og sjálfstæði okkar Íslendinga til að nýta okkar sjávarauðlindir.

Hver þarf að eiga óvini þegar hann á svona vini eins og Breta og Bandaríkjamenn?

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image