• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Sep

Launaliður kjarasamnings Norðuráls undirritaður hjá Ríkissáttasemjara í dag

Í húsakynnum Ríkissáttasemjara  var rétt í þessu undirritað samkomulag um hækkun á launalið kjarasamnings Norðuráls sem hefur verið laus frá 1. janúar sl. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur átt í viðræðum við forstjóra fyrirtækisins á liðnum vikum til lausnar á þessari erfiðu kjaradeilu sem lauk eins og áður sagði með undirritun rétt áðan.

Stóriðjuskóli

Hækkun launaliðar á samningstímanum mun gefa allt að 21,4% og því til viðbótar var samið um stóriðjuskóla sem hefur verið baráttumál starfsmanna um alllanga hríð, en áætlað er að skólinn hefji starfsemi innan árs frá undirritun samkomulagsins. Hins vegar er það einlægur vilji fyrirtækisins að stóriðjuskólinn hefji starfsemi í janúar 2012 og reynt verður eftir fremsta megni að láta það verða að veruleika. Grunnnám stóriðjuskólans, sem mun taka 3 annir, mun gefa starfsmönnum viðbótarhækkun upp á 5% og framhaldsnám skólans mun gefa 4% til viðbótar.

Hækkun grunnlauna

Annað sem um var samið í þessum samningi er hækkun á grunnlaunum um 5,35% frá 1. janúar 2011. Síðan munu þeir sem hafa starfað í 3 ár eða lengur fá 3% hæfnisálag ofan á grunnlaun. Þessu til viðbótar kemur önnur hækkun 1. desember á þessu ári upp á 5,35%. Með öðrum orðum þá fær starfsmaður sem starfað hefur í 3 ár hjá Norðuráli 14,2% launahækkun á árinu 2011. Þeir sem hafa starfað skemur en í 3 ár munu hins vegar fá 11% launahækkun á þessu ári, en þeim er tryggt að um leið og þriggja ára starfsaldri verður náð þá muni starfsmenn fá 3% án þess að þurfa að uppfylla skilyrði sem kveðið er á um í hæfnisálagi. Þeir sem hefja störf eftir 1. september 2011 þurfa hins vegar að uppfylla viss skilyrði til að fá þessi 3%, en ekki mun koma til framkvæmda á því fyrr en eftir 3 ár, eðli málsins samkvæmt.

Einnig mun koma 1% hækkun á launflokkum iðnaðarmanna 116/216 annars vegar og 117/217 hins vegar. Aðrar almennar launahækkanir eru 3,25% 1. janúar 2013 og 3% 1. janúar 2014.

Orlofs- og desemberuppbætur

Orlofs- og desemberuppbætur fyrir árið 2011 og 2012 munu hækka úr 264.000 í 293.000, en rétt er að geta þess að orlofs-uppbótin sem greidd var út í júní verður leiðrétt afturvirkt um 5,35% eins og öll önnur laun sem greidd hafa verið frá 1. janúar 2011 til dagsins í dag. Orlofs- og desemberuppbætur fyrir árið 2013 verða kr. 302.000 og fyrir árið 2014 kr. 311.000.

Sem dæmi þá munu laun vaktamanns með 5 ára starfsreynslu hafa hækkað frá 1. september 2011 um tæpar  kr. 36.000 á mánuði og síðan kemur önnur hækkun 1. desember og þá hafa laun hans hækkað um kr. 61.000 tæpar. Þá hafa heildarlaun þessa vaktamanns hækkað úr kr. 439.000 upp í tæp kr. 502.000 á mánuði. Iðnaðarmaður með 5 ára starfsreynslu á vöktum mun hækka um rúmar 47.000 kr. á mánuði frá og með 1. september og eftir hækkunina 1. desember nk. þá hafa laun hans hækkað um rétt rúmar 80.000 kr. á mánuði. Þá hafa heildarlaun hans hækkað úr rúmum 564.000 kr. í rúmar 644.000 kr. á mánuði.

Eins og áður hefur komið fram þá verða öll laun starfsmanna jafnt þeirra sem eru í starfi núna sem og þeirra sem hafa verið í sumarafleysingum eða hafa látið af störfum leiðrétt um 5,35% aftur til 1. janúar 2011.

Heilt yfir er formaður félagsins afar ánægður með þessa niðurstöðu sem í raun og veru hefur kostað blóð, svita og tár, þótt vissulega sé það alltaf þannig þegar kjaraviðræður eiga sér stað að menn myndu vilja fá meira. Það er hins vegar sannfæring formanns að lengra verði ekki komist í þessari lotu, enda telur formaður að mjög margt jákvætt hafi náðst í þessum samningi og nægir að nefna stóriðjuskólann í því samhengi og einnig þá bláköldu staðreynd að frá og með 1. desember nk. er launamunur á milli vaktavinnumanna Norðuráls og Fjarðaáls orðinn óverulegur sem var jú eitt af stóru baráttumálunum í þessum viðræðum. Það verður að teljast afar góð niðurstaða miðað við horfurnar í kjaraviðræðunum á liðnum mánuðum.

Formaður félagsins mun kynna þennan samning rækilega fyrir starfsmönnum og verða kynningarfundir haldnir á Gamla Kaupfélaginu sem hér segir:

 

  • Mánudaginn 26. september kl. 16
  • Þriðjudaginn 27. september kl. 17
  • Miðvikudaginn 28. september kl. 17
  • Fimmtudaginn 29. september kl. 17

Hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu og einnig verður hægt að kjósa á vinnustaðnum á skrifstofu aðaltrúnaðarmanns strax eftir helgi.

Að lokum vill formaður VLFA hvetja alla þá sem vilja fá nánari upplýsingar um innihald samningsins að vera óhrædda við að hringja í sig hvenær sem er, en sími formanns er 865-1294.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image