• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Jul

Fundur hjá ríkissáttasemjara á fimmtudaginn vegna Klafa

Í gærmorgun höfðu forsvarsmenn Klafa samband við formann félagsins og óskuðu eftir því að verkfallinu yrði frestað um eina viku vegna þess að eigendaskipti voru að eiga sér stað í fyrirtækinu. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá áttu Elkem Ísland og Norðurál 50% hvort í Klafa, en Klafi sér um allar út- og uppskipanir og aðra þjónustu fyrir áðurnefnd fyrirtæki.

Að höfðu samráði við starfsmenn og trúnaðarmann ákvað Verkalýðsfélag Akraness að verða við þessari ósk og fresta verkfallsaðgerðum til hádegis 11. júlí, en ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar fimmtudaginn 7. júlí.

Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er krafa starfsmanna Klafa að þeir fái sömu launahækkanir og eingreiðslu og um var samið við starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland, enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland og hafa ætíð verið með mjög sambærileg laun og greidd hafa verið í Járnblendiverksmiðjunni. Nú er bara að sjá og vona að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa sem fyrst og er formaður hóflega bjartsýnn á að það takist áður en til verkfallsaðgerða kemur. En það er morgunljóst að félagið og starfsmenn munu ekki hvika frá sinni sanngjörnu kröfu sem er sú sem hér hefur verið rakin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image