• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Jul

Engin stefnubreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls

Fundað var vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara í gær, og er skemmst frá því að segja að enginn niðurstaða hafa orðið af þeim fundi.

Það kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir væru að skoða þessi mál, en engin stefnubreyting hafi orðið af þeirra hálfu varðandi það tilboð sem fyrirtækið hafði lagt fram, en það tilboð byggðist alfarið á því sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en þar áttu starfsmenn að hækka um 4,25% á þessu ári, 3,5% árið 2012 og 3,25% árið 2013.

Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness algerlega hafnað og mun aldrei koma til greina að samið verði á þessum nótum því eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í áliðnaði sem hefur notið áhrifa af gengisfalli íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs sé sett undir sama hatt og fyrirtækis sem eiga í rekstrarerfiðleikum eins og til dæmis í byggingariðnaðinum.

Formaður félagsins kynnti einnig á fundinum í gær fyrir forsvarsmönnum fyrirtækisins þann launasamanburð sem félagið hefur gert vegna þessa kjarasamnings sem gerður var fyrir starfsmenn Fjarðaáls, en sá samanburður sýnir að launamunur á milli Fjarðaáls og Norðuráls getur numið í sumum tilfellum allt að 30% sem gerir það að verkum að það er tug þúsunda launamunur á milli þessa tveggja fyrirtækja fyrir sama vinnustundafjölda enda eru vaktakerfi þessara verksmiðja nánast eins.

Þetta eru niðurstöður sem starfsmenn, trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akraness munu aldrei sætta sig við og liggur fyrir að krafa félagsins fyrir hönd starfsmanna verður að sömu launahækkanir og um var samið í Fjarðaál munu koma til handa starfsmönnum  Norðuráls. Starfsmenn eru algerlega sammála því að það tilboð sem liggur fyrir mun aldrei verða samþykkt í fyrirtækinu enda gefur þetta tilboð starfsmönnum einungis 15-19 þúsund króna launahækkun á mánuði sem þýðir að starfsmenn munu einungis fá um 10 þúsund krónur í vasann.

Það hefur komið fram á fjölmennum fundum sem VLFA hefur haldið að starfsmenn ætla að standa þétt saman í þessari baráttu og eru frekar tilbúnir að bíða eins lengi og þörf krefur til að ná fram þeirri sjálfsögðu kröfu sem er að þeir njóti sömu launahækkana og um var samið í Fjarðaáli enda eru engar forsendur fyrir öðru.

Næsti fundur hefur ekki verið boðaður fyrr en 22. ágúst og má segja að það sé engin ástæða til að funda meðan ekki verður hugarfarsbreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls. Þennan slag mun Verkalýðsfélag Akraness taka alla leið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image