• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Starfsmenn Klafa fá sömu launahækkanir og starfsmenn Elkem Ísland Hafsteinn Þórisson, trúnaðarmaður Klafa
07
Jul

Starfsmenn Klafa fá sömu launahækkanir og starfsmenn Elkem Ísland

Eftir hörð átök vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa á Grundartanga tókst að ganga frá nýjum kjarasamningi í húsakynnum Ríkissáttasemjara upp úr hádegi í dag. Það er skemmst frá því að segja að markmið félagsins og starfsmanna um sömu launahækkanir og um var samið hjá Elkem Ísland hafi náðst að fullu. Verða það að teljast afar ánægjuleg tíðindi og í ljósi þeirra hefur formaður VLFA tilkynnt Ríkissáttasemjara og Samtökum atvinnulífsins að boðuðu verkfalli sem taka átti gildi nk. þriðjudag hafi verið aflýst.

Eins og áður hefur komið fram byggist samningurinn í meginatriðum á því sama og um samdist við Elkem. Grunnlaun hækka með sambærilegum hætti og bónusinn hækkar einnig með sambærilegum hætti og hámarkið fer úr 10% í 13,5% og einnig hefur starfsmönnum verið tilkynnt að þeir fái eingreiðslu sem er ígildi fastra mánaðarlauna, en sú eingreiðsla er ekki hluti af kjarasamningnum. Mun sú eingreiðsla vera greidd í tvennu lagi, helmingurinn með næstu útborgun og síðan í desember 2011.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka samtals úr 249.000 í 261.400 og í lok samningstímans verða uppbætur komnar upp í tæp 280.000 sem er hækkun um 12,2%. Samningurinn er að gefa starfsmönnum með eingreiðslunni tæp 16% á árinu 2011 og í heildina gefur samningurinn 24% á samningstímanum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill þakka trúnaðarmanni Klafa sem og öllum starfsmönnum fyrir órjúfanlega samstöðu sem gerði það að verkum að meginmarkmið félagsins og starfsmanna náðust að fullu. Því án samstöðu er morgunljóst að slíkt hefði ekki náðst. Einnig vill félagið þakka Elkem Ísland fyrir sinn þátt í því að hafa leyst þetta mál án átaka og ber að virða það. En eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá á Elkem Ísland nú 100% hlut í Klafa eftir að Norðurál seldi sinn helmingshlut.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image