• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Jul

Ótrúlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

Þann 5. júlí síðastliðinn féll stórundarlegur dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Þórarins Björns Steinssonar gegn Norðuráli og Sjóvá vegna slyss sem hann varð fyrir er hann var að bjarga samstarfskonu sinni sem hafði lent í því að fá 620 kg. stálbita ofan á sig. Þórarinn og samstarfsmaður hans tóku ákvörðun um það að lyfta bitanum ofan af samstarfskonunni til að hægt yrði að ná henni undan. Við þessa hetjulegu björgun varð Þórarinn fyrir alvarlegum bakmeiðslum sem hann hefur átt í síðan slysið átti sér stað og hefur m.a. verið lagður tvívegis inn á sjúkrahús sökum verkja sem rekja má til slyssins.

Enda kemur það fram í niðurstöðu dómsins að ekki er deilt um það að Þórarni hafi tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við þessa björgun skv. þeim læknisfræðilegu gögnum sem hann hefur lagt fram.

Það er í raun og veru með ólíkindum að lesa þennan dóm og að Norðurál skuli ekki sjá sóma sinn í því að bæta Þórarni þann skaða sem hann varð fyrir við það að bjarga samstarfskonu sinni er með hreinustu ólíkindum og er í raun og veru fyrirtækinu til ævarandi skammar. Það er ekki bara að Norðurál hafi óskað eftir algerri sýknu í þessu máli heldur gerði fyrirtækið einnig kröfu um að Þórarinn yrði dæmdur til að greiða Norðuráli málskostnað skv. málskotsreikningi eða að mati dómsins. Með öðrum orðum, maður sem vann hetjudáð með því að bjarga samstarfskonu sinni og hlaut af því varanlegan skaða hefði getað setið uppi með jafnvel milljónir króna í málskostnað, ef dómurinn hefði tekið tillit til kröfu Norðuráls.

Það er mat formanns að Þórarinn og samstarfsmaður hans hafi brugðist við með eðlilegum hætti þegar slysið á sér stað í ljósi þeirra staðreynda að stúlkan lá undir 620 kg. stálbita og fyrsta hugsun þessara manna var að koma henni til hjálpar enda lá hún þar sárkvalin undir. Þetta eru í raun og veru eðlileg viðbrögð fólks sem kemur að slíku slysi, að reyna að aðstoða eins fljótt og kostur er.

Í málsvörn og lagarökum Norðuráls segir m.a. að því sé jafnframt mótmælt sem ósönnuðu og röngu að nauðsynlegt hafi verið að lyfta bitanum án tafar til að komast hjá frekara tjóni og það hafi ekki verið unnt að gera með öðrum hætti. Hvaða skilaboð er verið að senda út til starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði sem koma að vinnufélögum sínum sem hafa slasast? Eru skilaboðin þessi: gerið ekki neitt. Því ef þið verðið fyrir skaða við slíka björgun þá er það á ykkar eigin ábyrgð.

Þetta er grafalvarlegur dómur fyrir alla íslenska launþegar og er í raun og veru mikilvægt að þessum dómi verði algerlega snúið við í Hæstarétti því öryggi starfsmanna vítt og breitt á íslenskum vinnumarkaði getur hér verið í húfi. En það er þyngra en tárum taki að fyrirtæki eins og Norðurál, eitt öflugasta fyrirtækið á íslenskum vinnumarkaði skuli koma fram við sinn starfsmann á þann hátt sem það hefur gert í þessu máli. Því skorar formaður Verkalýðsfélags Akraness á Norðurál að greiða Þórarni þær bætur sem eðlilegt getur talist í ljósi þess líkamstjóns sem hann hefur orðið fyrir því það er sorglegt að einstaklingur sem hefur aðstoðað samstarfskonu sína og jafnframt starfsmann Norðuráls skuli eiga að þurfa að sitja uppi með slíkan skaða án nokkurs réttar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image