• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verkalýðsfélag Akraness styrkir áfrýjun til Hæstaréttar Þórarinn Björn Steinsson
11
Jul

Verkalýðsfélag Akraness styrkir áfrýjun til Hæstaréttar

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað á fundi fyrir helgi að styrkja félagsmann sinn Þórarinn B Steinsson til að hann gæti áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 5. júlí sl.  Dómurinn sýknaði Sjóvá og Norðurál af allri bótaskyldu gagnvart Þórarni vegna slyss sem hann varð fyrir þegar hann var að hjálpa samstarfskonu sinni hjá Norðuráli, en Þórarni ásamt öðrum starfsmanni Norðuráls tókst að lyfta 620 kg. stálbita sem fallið hafði á fætur samstarfskonu þeirra. Við slysið varð Þórarinn 75% öryrki og hefur ekki fengið neinar bætur vegna þessa slyss.

Formaður VLFA undrast að forsvarsmenn Norðuráls skuli reyna að skjóta sér undan allri bótaskyldu í ljósi þess að hann vann hetjudáð við að bjarga samstarfskonu sinni og aðgerðir Þórarins við að bjarga konunni geta seint talist glæfralegar enda beittu hann og samstarfsmaður hans einungis handafli þegar þeir lyftu 620 kg. stálbita ofan af samstarfskonunni. 

Það er sorglegt til þess að vita að komi vinnufélagi samstarfsmanni sínum til hjálpar og vinni slíkt þrekvirki geti hann jafnvel átt von á því að sitja uppi með varanlega örorku uppá 75% og það án þess að fá neinar bætur hvorki frá tryggingarfélaginu né fyrirtækinu.  Það er einnig mat formanns að með þessum dómi sé verið að senda slæm skilaboð útí samfélagið, skilaboð sem segja: ef þið aðstoðið fólk í neyð þá er það algerlega á ykkar ábyrgð.

Kostnaður við að reka mál fyrir dómsstólum er hár og hér eru hagsmunir og öryggi allra launþega í húfi. Á þeirri forsendu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness stolt af því að hafa gert það að verkum með þessum styrk að þessum dómi verði áfrýjað til Hæstaréttar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image