• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Stefnir í hörð átök Starfsmenn Klafa kjósa um síðasta kjarasamning
30
Jun

Stefnir í hörð átök

Það er óhætt að segja að fundurinn hjá ríksisáttasemjara vegna kjaradeilu Klafa hafi verið árangurslaus enda stóð fundurinn einungis yfir í tæpan hálftíma þó afar stutt sé nú í boðað verkfall starfsmanna. Það hefst eins og áður hefur komið fram á þriðjudaginn næstkomandi.

Aðstoðarríkissáttasemjari sem stýrði þessum fundi kallaði eftir því frá samningsaðilum hvort einhver breyting hefði orðið á deilunni frá síðasta fundi. Kom skýrt fram af hálfu forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins, sem leiða viðræðurnar fyrir hönd Klafa, að engin stefnubreyting væri af hálfu fyrirtækisins varðandi þessa deilu. Þeir hafa boðið eins og áður hefur komið fram að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og samið var um á hinum almenna vinnumarkaði í anda hinnar frægu samræmdu launastefnu. Krafa félagsins fyrir hönd stafsmanna er hvellskýr en hún byggist á því að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið við starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland.

Það er algjörlega óásættanlegt að samið sé við starfsmenn Elkem Ísland upp á mjög góðar launahækkanir og eingreiðslu og ætlast til þess að starfsmenn Klafa sem starfa á nákvæmlega sama svæði og borða í sama mötuneyti sé boðið einungis lítið brot af því sem um var samið fyrir áðurnefnda starfsmenn. Þetta er eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Klafa geta ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við og munu ekki sætta sig við.

Á þeirri forsendu hafa starfsmenn og stéttarfélagið nú hafið fullan undirbúning að þeirri vinnustöðvun sem mun hefjast á þriðjudaginn næstkomandi en það eru fjölmargir verkþættir sem munu stöðvast samdægurs þegar verkfallið skellur á. Það eru undanþágur í samningnum um að halda ofnum í Elkem heitum í allt að þrjár vikur og að sjálfsögðu munu starfsmenn og stéttarfélagið uppfylla þessar undanþágur en það kom fram á fundinum í morgun að fyrirtækið muni óska eftir þessari undanþágu. Þó svo að þessi undanþága sé til staðar þá mun þetta hafa gríðarleg áhrif á starfsemi Elkem Ísland ef verkfallið verður að veruleika sem fátt virðist í raun geta komið í veg fyrir.

Ríkissáttasemjari boðaði til næsta sáttafundar á mánudaginn kl. 16 en þá verður einungis tæpur sólarhringur þar til þessi vinnustöðvun skellur á af fullum þunga. Það er morgunljóst að það er engan bilbug að finna á starfsmönnum né Verkalýðsfélagi Akraness í þessari deilu og mun verkfallssjóður styðja sína félagsmenn í hvívetna ef til átaka mun koma.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image