• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Frábær kynningar- og samstöðufundur í Bíóhöllinni í gær Frá fundinum í gær
30
Jun

Frábær kynningar- og samstöðufundur í Bíóhöllinni í gær

Það er óhætt að segja að kynningar- og samstöðufundurinn sem Verkalýðsfélag Akraness hélt með starfsmönnum Norðuráls í gær hafi heppnast frábærlega. En um 250 starfsmenn mættu á fundinn, sem er upp undir 50% af starfsmönnum Norðuráls. Það var frábært að finna þann einhug og samstöðu sem ríkti á meðal starfsmanna í þessari kjaradeilu sem félagið á nú í við forsvarsmenn Norðuráls.

Á fundinum rakti formaður félagsins þá stöðu sem nú er upp komin í þessari erfiðu deilu, en eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann launaliður samningsins út um síðustu áramót og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa allar viðræður hingað til verið árangurslausar. Forsvarsmenn fyrirtækisins og Samtök atvinnulífsins sem leiða viðræðurnar fyrir hönd Norðuráls hafa einungis boðið launahækkun í samræmi við hina margfrægu samræmdu launastefnu sem ASÍ og SA gerðu á hinum almenna vinnumarkaði.

Það hefur margoft komið fram í máli formanns að það eru engar forsendur fyrir því að álfyrirtæki eins og Norðurál sem hefur hagnast gríðarlega á undanförnum árum vegna góðra rekstrarskilyrða m.a. vegna gengisfalls íslensku krónunnar sem og stórhækkaðs afurðaverðs komi með kjarabætur í anda samræmdrar launastefnu, enda er ekki hægt að setja álfyrirtæki í sömu stöðu og t.a.m. fyrirtæki í byggingariðnaði sem eiga í bullandi rekstrarerfiðleikum um þessar mundir. Það hefur verið krafa félagsins að þessum ávinningi útflutningsfyrirtækja verði skilað með afgerandi hætti til starfsmanna umræddra fyrirtækja.

Á fundinum í gær fór formaður yfir nýgerðan kjarasamning sem gerður var fyrir starfsmenn Alcoa Fjarðaáls, en sá samningur veitti starfsmönnum umtalsverðar launahækkanir og kynnti formaður á fundinum hver launamunurinn á milli starfsmanna Norðuráls og Fjarðaáls er núna eftir að Fjarðaál gekk frá sínum samningi. En sá launamunur er sláandi. Rétt er að geta þess að vinnutími og vaktafyrirkomulag eru nánast með sama hætti í báðum verksmiðjunum. Með öðrum orðum þá var verið að bera saman epli og epli, ekki epli og appelsínur.

Í kynningunni kom fram að launamunur verkamanna á vöktum er frá 70.000 kr. upp í 80.000 kr. á mánuði eða sem nemur frá 16% upp í tæp 22%, sé miðað við þann launaflokk sem stórum hluta starfsmanna Fjarðaáls var raðað í í nýgerðum samningi, en það er launaflokkur sem kallast Framleiðslumaður 3. Launamunur iðnaðarmanna á vöktum er frá kr. 99.000 upp í 108.000, eða sem 17,5%-18,5%. En flestir iðnaðarmenn röðuðust inn sem iðnaðarmaður 4 í nýgerðum kjarasamningi Fjarðaáls. Launamunur verkamanna í dagvinnu nemur frá tæpum kr. 79.000 upp í 85.000 kr. á mánuði eða frá 26,4% upp í 32,7%. Launamunur iðnaðarmanna í dagvinnu er frá kr. 99.000 upp í 106.000 kr., eða frá 28,4% upp í 29,6%.

Einnig var samið um stóriðjuskóla sem mun hefja starfsemi sína í haust en þar mun starfsmönnum gefast kostur á að fara í nám sem gefur kost á allt að 10% launahækkun til viðbótar að námi loknu. Og sem dæmi þá munu starfsmenn Fjarðaáls, að afloknum stóriðjuskólanum, vera með kr. 111.000 upp í 120.000 kr. hærri laun en verkamenn í Norðuráli á vöktum.

Á þessu sést að hér er um sláandi launamun að ræða, en það ber að fagna þessum samningi sem gerður var í Fjarðaáli þar sem skín í gegn að eigendur Alcoa hafa greinilega verið tilbúnir til að skila þeim mikla ávinningi og sínu góða rekstrarumhverfi sem ríkir um þessar mundir hjá álfyrirtækjum með afgerandi hætti til sinna starfsmanna. Á fundinum í gær var algjör einhugur og samstaða um það að það séu ekki nokkrar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsbræður og -systur í Alcoa Fjarðaáli. Krafan á fundinum var skýr: sömu laun fyrir sömu vinnu. Við annað verður ekki unað að mati Verkalýðsfélags Akraness og allra þeirra starfsmanna sem sátu fundinn í gær.

Reyndar vekur það undrun formanns hvað hafi orðið um samræmdu launastefnuna sem öll stéttarfélög innan ASÍ stóðu að nema Verkalýðsfélag Akraness í þessum samningi í Fjarðaáli. Einfaldlega vegna þess að þarna var í sumum tilfellum samið um tugi prósenta, en formaður félagsins vill ítreka það að hann fagnar þessum samningi innilega og óskar starfsmönnum og forsvarsmönnum Alcoa til hamingju með þennan samning sem er algjörlega í anda þess sem formaður VLFA hefur ætíð sagt: að fyrirtæki í útflutningi eigi að skila ávinningnum til sinna starfsmanna með afgerandi hætti. Það hefur gerst hjá Fjarðaáli svo ekki verður um villst.

Boðað hefur verið til fundar í húsakynnum Ríkissáttasemjara á mánudaginn kl. 16:30 og það er alveg ljóst að þessi mikli launamunur sem er orðinn á milli þessara tveggja fyrirtækja verður svo sannarlega til umræðu enda mun krafan byggjast á þessum samningi sem Fjarðaál gerði, eða eins og áður sagði: sömu laun fyrir sömu vinnu. Enda ber formaður þá von í brjósti sér að eigendur Norðuráls vilji meta sína starfsmenn í sömu verðleikum í launakjörum séð eins og er nú að gerast í Fjarðaáli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image