• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Mar

Græðgisvæðingin að skjóta rótum á nýjan leik

Það er óhætt að fullyrða að íslenskri alþýðu þessa lands ofbauð þau ofurlaun sem æðstu stjórnendur fjármálageirans skömmtuðu sér fyrir bankahrunið.  Á þessum tíma horfði almenningur upp á þessa snillinga skammta sér ofurlaun sem námu frá fleiri milljónum á mánuði upp í tugi milljóna svo ekki sé nú talað um þegar fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Lárus Welding, fékk 300 milljónir fyrir það eitt að hefja störf hjá nýjum banka.

Þegar verkalýðshreyfingin og fleiri aðilar gagnrýndu kaupréttarsamninga, bónusa og önnur ofurlaun hjá starfsmönnum fjármálastofnana á sínum tíma þá komu skýr svör frá þeim aðilum sem þáðu þessi ofurlaun:  ykkur grálúsuga almúganum kemur þetta ekkert við.

Í búsáhaldabyltingunni var þess krafist að tekin yrðu upp ný gildi og gildi er lúta að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings yrðu látin víkja fyrir nýjum gildum sem lúta að réttlæti, jöfnuði og virðingu.  Á þessum gildum vildi alþýða þessa lands sjá hið nýja Ísland byggt upp.

Núna þurfum við hins vegar að horfa upp á græðgisvæðinguna skjóta rótum í bankakerfinu á nýjan leik ef marka má fréttir af ofurlaunum bankastjóra Arion banka. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa laun Höskuldar Ólafssonar núverandi bankastjóra Arion  hækkað um 145% frá árinu 2008 og nema nú 4,3 milljónum á mánuði.

Þessar hækkanir áttu sér stað á sama tíma og íslenskir launþegar voru þvingaðir til að fresta og afsala sér hluta af sínum launahækkunum samhliða stöðugleikasáttmálanum sáluga vegna efnahagshrunsins. Það er ekki bara að fréttir af þessum ofurlaunum birtist íslensku launafólki þessa dagana, heldur var fyrir örfáum dögum síðan kynnt vegleg hækkun til héraðs- og hæstaréttadómarar sem nam rúmum 100.000 kr. á mánuði. Núna gera Samtök atvinnulífsins þá kröfu á íslenska launþega að þeir gangi frá afar hófstilltum kjarasamningum til að mæta efnahagsvanda íslensks atvinnulífs. Gangi það eftir verða mánaðarlegar hækkanir um eða undir 10.000 kr. á mánuði. Með öðrum orðum, enn og aftur á það að vera íslenskt launafólk sem á að slá af sínum kröfum á meðan einstakir hópar geta skammtað ríflega sín launakjör svo nemur hundruðum þúsunda króna hækkun á mánuði.

Nú held ég að sé komið að algjörri ögurstundu hjá alþýðu þessa lands og nú þurfi hún að rísa aftur upp og það með afgerandi hætti. Því það er alveg ljóst að það er stefnt leynt og ljóst að því að taka að nýju upp gömlu gildin, gildin sem lutu að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings. Á þeirri forsendu er það alþýða þessa lands sem þarf að sjá til þess að græðgisvæðingin nái ekki aftur að skjóta rótum í okkar samfélagi, það er búið að níðast nóg á almenningi í þessu landi og við vitum hvað þarf til að stjórnvöld og bankastjórnendur hlusti á almenning í þessu landi. Nú þarf að dusta rykið af búsáhöldunum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image