• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Mar

104 dagar án launahækkana

Verksmiðja Norðuráls á GrundartangaVerksmiðja Norðuráls á GrundartangaNú eru liðnir 104 dagar frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út en eins og flestir vita þá runnu samningarnir út 1 desember 2010. Á þessu sést að launafólk hefur orðið af launahækkunum í þrjá og hálfan mánuð og á sama tímabili hefur launafólk þurft að horfa upp á skefjalausar hækkanir á öllum sviðum - af hálfu ríkis og sveitarfélaga og á öðrum útgjaldarliðum er snúa að rekstri heimilis.

Það er nöturlegt að verða vitni að því að lítið sem ekkert virðist vera að gerast í kjaraviðræðunum, búið að rífa samningsumboðið af stéttarfélögunum og færa það yfir til Alþýðusambands Íslands en eins og margoft hefur komið hér fram á heimasíðunni neita Samtök atvinnulífsins að ganga frá kjarasamningum við félagið varðandi kjarasamninga eins og við Elkem Ísland, Klafa og launalið Norðuráls. Samtök atvinnulífsins hafa sagt skýrt á fundum að ekki verði gengið frá samningum fyrir áðurnefnd fyrirtæki fyrr en samið hefur verið við ASÍ en eins og allir vita þá er unnið að samræmdri launastefnu af hálfu þessara aðila.

Það er skelfilegt til þess að vita að ekki sé hægt að ganga frá kjarasamningum við þau útflutningsfyrirtæki sem eru til að mynda á Grundartangasvæðinu vegna þess ofbeldis sem lítur að margumtöluðu samræmdu launastefnunni en útflutningsfyrirtækin eru að skila gríðarlega góðri afkomu um þessar mundir vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs. Sem dæmi hefur álverðið rokið upp og eins og fram kom í fréttum ekkert alls fyrir löngu má áætla að álfyrirtækin þrjú hér a landi skili allt að 38 milljörðum meira í hagnað heldur en þau gerðu á síðasta ári bara vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefur á heimsmarkaðsverði á áli. Hvaða forsendur eru fyrir því að ekki sé hægt að ganga frá kjarasamningum fyrir þessa starfsmenn?

Samtök atvinnulífsins krefjast þess að samið verði á grundvelli samræmdrar launastefnu sem ASÍ hefur fallist á en það gilda ekki sömu lögmál um alla hvað varðar samræmda launastefnu og nægir að nefna í því samhengi stjórnarmennina í Samtökum atvinnulífsins, þau Birnu Einarsdóttur og Höskuld H. Ólafsson bankastjóra sem hækkuðu um milljónir króna á ársgrundvelli á síðasta ári. Eða hækkunina til héraðs- og hæstaréttardómara upp á 101.000 kr. á mánuði. Skilaboðin frá Samtökum atvinnulífsins til almenns launafólks eru: Þið sauðsvartur almúginn, þið skuluð bíða þar til okkur þóknast að ganga frá samningum við ykkur.

Það eru litlar fréttir sem berast af gangi þessara viðræðna og virðast fáir vita í raun og veru hvað sé verið að ræða um er lítur að launalið kjarasamningsins á hinum almenna vinnumarkaði. Því er það grátbroslegt sem fram kom í fréttum 11. febrúar þar sem haft var eftir forseta ASÍ að kraftur væri kominn í kjaraviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins. Það þykir ekki ýkja mikill kraftur ef marka má að liðinn er rúmur mánuður frá því að þessi orð forsetans birtust í fréttum og ekkert hefur gerst.

Alþingi Íslendinga þarf að tryggja það að atvinnurekendur komist ekki upp með það að geta dregið kjaraviðræður eins og þeim dettur í hug vegna þess að það er ekkert tryggt frá hvaða tíma viðkomandi samningar eiga að gilda. Það þarf með öðrum orðum að tryggja að kjarasamningar gildi ávallt frá þeim tíma sem þeir renna út þannig að það myndist einhver pressa á Samtök atvinnulífsins að ganga frá samningum við launafólk. Eins og staðan er í dag eru það bara atvinnurekendur sem hagnast á því að draga kjarasamninga eins lengi og þeim sýnist. Allt á kostnað íslenskra launþega. Þarna verður Alþingi Íslendinga að grípa inn í því verkalýðshreyfingin hefur ekki kjark né þor til að lemja hressilega í borðið og krefjast þess að samningar gildi frá því að fyrri samningar runnu út.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image