• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Feb

Fundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu í fiskimjölsverksmiðjunni

Það var afar ánægjulegt að fá yfirlýsingu frá Landssambandi Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þar sem þeir lýsa yfir fullum stuðningi við boðaðar aðgerðir Verkalýðsélags Akraness. Einnig senda þeir starfsmönnum í loðnubræðslum baráttukveðjur vegna fyrirhugaðs verkfalls sem á að hefjast 15. febrúar.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar kl. 14 í dag í húsakynnum sínum þar sem farið verður yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. Formaður VLFA vill ítreka það að félagið hefur margoft rétt út sáttarhönd í þessu máli og meðal annars boðið forsvarsmönnum HB Granda, sem eiga og reka fiskimjölsverksmiðuna, að framlengja samninginn til 1. maí næstkomandi gegn eingreiðslu til hvers starfsmanns. Því miður þá hafa forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafnað þessar sáttatillögu algjörlega.

Á þeirri forsendu er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins mikil í þessu máli því heildarkostnaður þessarar lausnar hefði einungis verið um 3 milljónir króna fyrir fyrirtækið. Ef menn vilja fórna milljörðum fyrir 3 milljónir þá er það einhver hagfræði sem formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur ekki. Á  fundinum á eftir mun félagið halda áfram að reyna að finna lausn á þessu máli en það mun verða lágmarkskrafa frá félaginu að þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn hafa orðið fyrir verði skilað að fullu til baka við undirritun kjarasamnings. Enda eru engar forsendur fyrir því að útflutningsfyrirtæki sem hafa verið að hagnast á gengisfalli íslensku krónunnar skili ekki þeirri kaupmáttarskerðingu að fullu til baka til sinna starfsmanna.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image