• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Feb

Ábyrgðarleysi Samtaka atvinnulífsins

Í dag fundar Verkalýðsfélag Akraness vegna þriggja kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara. Kl. 15 í dag mun samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness vegna Elkem Ísland og Klafa funda með Samtökum atvinnulífsins.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur samninganefndin boðið forsvarsmönnum fyrirtækjanna og Samtökum atvinnulífsins að framlengja kjarasamning áðurnefndra fyrirtækja til 1. maí gegn eingreiðslu en því tilboði hafa Samtök atvinnulífsins alfarið hafnað. Það mun ekki standa á Verkalýðsfélags Akraness og samninganefnd félagsins að leita allra leiða til að ná sátt í þeirri alvarlegu deilu sem nú stefnir í á Grundartangasvæðinu. Það er hins vegar morgunljóst að hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um að þvinga starfsmenn í útflutningsfyrirtækjum til að semja upp á 2,5% hækkun á ári eða sem nemur ca 8% í 3 ára samningi munu ekki koma til greina.

Ef Samtök atvinnulífsins munu standa fast á þessari kröfu þá er hvellskýrt að kosið verður um vinnustöðvun í áðurnefndum fyrirtækjum áður en langt um líður. Það er einnig hvellskýrt að lágmarkskrafa verði að áðurnefnd fyrirtæki skili þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn þessara fyrirtækja hafa orðið fyrir frá ársbyrjun 2008 fram á daginn í dag, enda eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í útflutningi komist hjá slíku.

Það er einlæg von samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness að deiluaðiliar leysi þetta mál til að viðhalda þeim rótgróna stöðugleika sem ríkt hefur á Grundartangasvæðinu í áratugi. Á þeirri forsendu er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins gríðarleg og krafa þeirra um að neita að ganga frá kjarasamningum við launþega, sem eru á engan hátt tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum, fyrr en lausn finnst á ágreiningi LÍÚ við stjórnvöld er forkastanleg og verður ekki liðin. Formaður spyr sig: Hver var það sem boðaði til fundar með þingmönnum NV kjördæmis og ráðherra þegar til stóð að leggja orkuskatt á stóriðjufyrirtækin, orkuskatt sem hefði þýtt milljarða í aukinn kostnað fyrir stóriðjufyrirtækin á Grundartanga? Jú, það var formaður Verkalýðsfélags Akraness sem stóð fyrir þeim fundi. En hvar voru Samtök atvinnulífsins þá? Núna taka þau kjarasamninga launafólks í herkví vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins og stefna eins og áður sagði stöðugleika á Grundartangasvæðinu í stórhættu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image