• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Tilboð sem hljóðaði upp á nánast ekki neitt Fiskimjölsverksmiðjan á Akranesi
15
Feb

Tilboð sem hljóðaði upp á nánast ekki neitt

Fundað var í húsakynnum ríkissáttasemjara í tæpa 11 klukkutíma í gær vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Síldarbræðslunnar á Akranesi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur félagið rétt fram sáttarhönd sem felst meðal annars í því að framlengja núverandi samning til 1. maí gegn eingreiðslu en kostnaður vegna þessa tilboðs er einungis um 2 milljónir króna. Einnig hefur félagið slegið verulega af upprunalegum launakröfum eða sem nemur 52% en allt kemur fyrir ekki, engan sáttavilja er að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Á fundinum í gær óskuðu Samtök atvinnulífsins eftir því að fulltrúar stéttarfélagana myndu ekki fara úr húsakynnum ríkissáttasemjara vegna þess að þeir ætluðu að leggja fram tilboð til handa stéttarfélögunum en það verður að segjast alveg eins og er að það tilboð sem barst á tíunda tímanum í gærkvöldi hafi verið grátbroslegt. Tilboðið gekk út á það að skerða neysluhlé starfsmanna um 15 mínútur gegn greiðslu. Þetta hefði þýtt að starfsmenn Síldarbræðslunnar á Akranesi hefðu fengið launahækkun sem næmi í kringum 24 þúsund krónur á ársgrundvelli. Síðan buðu þeir að starfsmenn Síldarbræðslunnar myndu fá sambærilegar hækkanir og annað fiskvinnslufólk á hinum almenna vinnumarkaði. En á þessari stundu er algjörlega óvíst hvað um semst í þeim efnum. Þannig að það sem var boðið í gær til að bjarga hér 10 milljarða aflaverðmætum var nánast ekki neitt.

Formaður hefur verið í sambandi við forstjóra HB Granda með von um að hægt sé að leysa þessa deilu áður en til verkfalls kemur og hefur ítrekað ósk sína um fyrri tilboð. Æði margt bendir til þess að Samtök atvinnulífsins ætli sér að semja hér um samræmda launastefnu algjörlega óháð getu útflutningsfyrirtækja. Eins og margoft hefur komið fram hér þá hefur afurðaverð á mjöli og lýsi hækkað gríðarlega á síðustu árum eða sem nemur á annað hundrað prósent. Á þeirri forsendu eru ekki nokkrar ástæður til þess að þessir starfsmenn þurfi að lúta valdi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um samræmda launastefnu. Verkalýðsfélag Akraness mun ekki taka þátt í slíkri samræmdri launastefnu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image