• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Unnið að lausn málsins Verksmiðja Elkem Grundartanga
25
Feb

Unnið að lausn málsins

Í gær var haldinn samningafundur hjá Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem Ísland. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var algjörlega árangurslaus, nokkurs hroka gætti og alls engan samningsvilja var að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Félagið vinnur áfram ötullega að því að finna lausn á þessu grafalvarlega máli, en það er alveg morgunljóst að ástandið nú er afar eldfimt. Samninganefndin í heild sinni leggur sig í líma við að forða þessari deilu frá alvarlegum átökum.

Verkalýðsfélag Akraness fundaði með öllum starfsmönnum Elkem Ísland á mánudaginn var og á þeim fundi var formanni félagsins veitt fullt umboð til að finna farsæla lausn þar sem hagsmunir starfsmanna yrði hafðir að leiðarljósi. Einnig var honum veitt heimild til að gefa sér þann tíma sem hann þyrfti til að finna farsæla lausn á deilunni. Nú er staðan þannig að hugsanlega þarf félagið ögn lengri tíma til að ná niðurstöðu í þessari alvarlegu kjaradeilu enda eru gríðarlegir hagsmunir í húfi ekki bara fyrir starfsmenn heldur í raun og veru fyrir allt þjóðarbúið. 

Það er einnig ljóst að það ofbeldi sem Samtök atvinnulífsins hafa sýnt í þessu máli þar sem rótgrónum stöðugleika á Grundartangasvæðinu er stefnt í algjöra tvísýnu er með hreinustu ólíkindum. Þetta ofbeldi mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta yfir sig ganga enda mun félagið ávalt hafa hagsmuni sinna félagsmanna að leiðarljósi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image