• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Feb

Ótrúleg skoðanakönnun

Hún var alveg ótrúleg könnunin sem forysta Alþýðusambands Íslands lét gera er laut að samræmdri launastefnu. Formaður félagsins veltir því fyrir sér hver tilgangur forystu ASÍ var með þessari könnun en það er mat formanns að hér hafi ekkert annað legið að baki en að skemma sterka stöðu starfsmanna sem starfa hjá útflutningsfyrirtækjum vegna gríðarsterkrar stöðu þessara fyrirtækja. Spurningin var afar villandi og er þar vægt til orða tekið.

Spurningin hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Nú standa yfir viðræður um nýja kjarasamninga. Hvort ertu hlynntari því að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á sambærilegar launahækkanir fyrir alla, eða meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinunum, sem njóta nú góðs af gengi krónunnar?

Könnunin var með þeim hætti að 94% svörðuðu þessari spuringu játandi en einungis 6% neitandi. Eins og áður hefur komið fram var þessi spurning afar villandi og nægir að nefna í því samhengi að ekki kemur skýrt fram hvað átt er við með sambærilegum launahækkunum. Eins og samræmd launastefna hefur verið kynnt þá byggist hún á tvennu, annars vegar á prósentuhækkunum og hins vegar á krónutöluhækkunum. Eins og margoft hefur komið hér fram á heimasíðunni þá myndi þessi samræmda launastefna þýða það, miðað við þau drög sem kynnt hafa verið, að lágtekjufólk væri að fá í kringum 9 þúsund króna hækkun á sínum launatöxtum á meðan að þeir sem starfa ekki eftir taxtakerfi væru að fá upp undir 3,5% launahækkun.

Myndu þeir sem tóku þátt í könnuninni sætta sig við að forseti ASÍ fengi 35 þúsund króna hækkun, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins 60 þúsund króna hækkun og margir aðrir miðstjórnarmenn innan ASÍ væru að fá frá 35 þúsund og upp í 50 þúsund króna hækkun á meðan almennir verkamenn, til dæmis fiskvinnslufólk og verkamenn í stóriðjum, væru að fá 9 þúsund króna hækkun. Hefðu þeir sem tóku þátt í könnuninni greitt atkvæði eins og áður hefur komið fram ef þessar staðreyndir hefðu legið fyrir? Svar formanns við því er nei. Er þetta samræmda launastefnan sem ASÍ vill fara, að slegin verði skjaldborg utan um þá tekjuhæstu?

Á fundi með Samtökum atvinnulífsins vegna launaliðar Norðuráls var það fyrsta sem fulltrúar fyrirtækisins höfðu orð á að 94% sem tóku þátt í könnuninni væru hlynntir samræmdri launastefnu og af þeirri ástæðu vildi fyrirtækið að sjálfsögðu semja á slíkum forsendum.

Það er mat formanns að hér sé um gríðarleg skemmdarverk að ræða af hálfu forystu ASÍ enda eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki starfandi í útflutningi komist hjá því að skila kaupmáttarskerðingunni sem starfsmenn hafa orðið fyrir vegna efnahagshrunsins enda eru útflutningsfyrirtæki að hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og vegna stórhækkaðs afurðaverðs. Það er nöturlegt að verða vitni að því að slík könnun sé gerð einvörðungu til að veikja stöðu þeirra sem eru að berjast fyrir því að útflutningsfyrirtæki skili ávinningnum til sinna starfsmanna. Að kosta til könnunar sem kostar jafnvel hundruðir þúsunda með þetta að meginmarkmiði er sorglegt.

Það liggur algjörlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki láta þetta ofbeldi yfir sig ganga enda verður þessum vinnubrögðum mætt af fullri hörku. En vissulega er við ramman reip að draga þegar bæði þarf að berjast við atvinnurekendur og ekki síður þá láglaunastefnu sem forysta ASÍ vinnur nú ötullega að með Samtökum atvinnulífsins. Nú er mikilvægt að launþegar allir sem einn standi þétt saman og berjist gegn þessari láglaunastefnu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image