• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Kjaradeilu Elkem Ísland og Klafa vísað til ríkissáttasemjara Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga
24
Jan

Kjaradeilu Elkem Ísland og Klafa vísað til ríkissáttasemjara

Samninganefnd Elkem Ísland fól formanni Verkalýðsfélags Akraness að vísa kjaradeilu starfsmanna til ríkissáttasemjara í morgun. Einnig fól samninganefnd Klafa ehf, sem er þjónustufyrirtæki sem sér um upp- og útskipanir á Grundartangahöfn, formanni að vísa sinni kjaradeilu til ríksisáttasemjara. En rétt er að geta þess að Klafi ehf er í 50% eigu Elkem Ísland og 50% eigu Norðuráls.

Samninganefndin hefur haldið tvo formlega fundi með Samtökum atvinnulífsins vegna áðurnefndra kjarasamninga en algjörlega án árangurs. Því til viðbótar gerði samninganefndin forsvarsmönnum Elkem Ísland og Klafa ehf tilboð sem var fólgið í því að framlengja samningana til 1. maí næstkomandi gegn eingreiðslu til handa starfsmönnum. Það er skemmst frá því að segja að forsvarsmenn Elkem Ísland tóku þessari hugmynd nokkuð vel en nú virðist sem Samtök atvinnulífsins hafi alfarið meinað fyrirtækinu að ganga frá slíku samkomulagi.

Samninganefndin harmar það að Samtök atvinnulífsins skuli hafa lagt stein í götu þessa samkomulags og það er ábyrgðarlaust af hálfu Samtaka atvinnulífsins að verða valdir að því að stefna áðurnefndri kjaradeilu í átök. Það er fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að gripið verði til róttækra aðgerða í áðurnefndum fyrirtækjum. Það ríkir einhugur á meðal samninganefndar og þeirra fjölmörgu starfsmanna sem formaður hefur rætt við síðustu daga um að sýna fulla hörku í þeirri kjaradeilu sem starfsmenn eiga nú í.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá leggur félagið ofuráherslu á að útflutningsfyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega á gengisfalli íslensku krónunnar, skili því með einum eða öðrum hætti til starfsmanna sinna. Á þeirri forsendu hafnar samninganefnd áðurnefndra fyrirtækja alfarið samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit er tekið til góðrar stöðu útflutningsgreina.

Verkalýðsfélag Akraness mun standa fyrir fundi með starfsmönnum, væntanlega næstkomandi fimmtudag, þar sem farið verður yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og einnig til að kalla fram til hvaða aðgerða starfsmenn vilja grípa. Fundurinn verður haldinn bæði með starfsmönnum Elkem Ísland sem og Klafa og verður auglýstur nánar síðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image